Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 13:41:18 (7873)

     Frsm. meiri hluta félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Hv. 5. þm. Vestf. bar fram þá spurningu, sem hann hefur nú endurtekið, við 2. umr. málsins og óskaði þess að formaður félmn. aflaði upplýsinga um stöðu þessara mála sem hann benti á og hef ég svo gjört og óska eftir að koma þeim upplýsingum á framfæri þó hann hafi bætt við spurningu sína til utanrrh.
    Þann 27. júlí 1992 voru samþykktar breytingar á reglugerð 1612. Þessum breytingum er ætlað að kveða skýrar á um einstök verkefni og hlutverk þeirra aðila er hafa umsjón með atvinnuráðningum og vinnumiðlun milli aðildarríkjanna, sbr. breytingar á 14. og 17. gr. Þá eru gerðar breytingar á hvaða upplýsinga eigi að afla og senda milli aðila og hvenær og hvernig miðla eigi þessum upplýsingum, sbr. breytingar á 14., 15. og 19. gr. Enn fremur eru ýmsar óbeinar takmarkanir fyrir aðgangi launafólks að vinnumarkaði annarra aðildarríkja felldar brott, sbr. breytingar á 16. gr. og niðurfelling á 20. gr. og viðauka vegna 16. gr. Til upplýsingar vil ég geta þess að úr 16. gr. er fellt niður ákvæðið ,,og ekki hefur reynst unnt að ráða vinnuafl af innlendum vinnumarkaði`` þannig að upplýsingar um laus störf, sem ríkisborgarar annarra aðildarríkja geta unnið, á að veita þjónustuskrifstofum annarra aðildarríkja. Þá eiga þjónustuskrifstofur að svara umsóknum erlendra ríkisborgara um atvinnu innan mánaðar. Þjónustuskrifstofan á að veita ríkisborgurum aðildarríkjanna sömu forréttindi og gilda um launþega frá ríkjum sem ekki eiga aðild að bandalaginu. Þetta er um þjónustu vinnumiðlunar.
    20. gr., eins og áður hefur verið getið, fjallar um möguleika á tímabundinni stöðvun vinnumiðlunar á tiltekin svæði eða í tiltekna atvinnugrein og viðauki vegna 16. gr. er nánari útskýring á hugtaki þessarar greinar. Þessar breytingar öðlast gildi eftir þá dagsetningu sem samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði er miðaður við en undir samninginn um Evrópskt efnahagssvæði falla og voru teknar upp viðeigandi gerðir sem samþykktar höfðu verið innan Evrópubandalagsins fyrir 1. ágúst 1991. Það verður tekin ákvörðun um það hvaða EB-gerðir bætast við á fyrsta fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar sem kemur saman eftir gildistöku EES-samningsins og fyrst þá er hægt að vita hvaða gerðir EFTA mun taka upp eftir þessa dagsetningu.
    Verði samþykkt að umræddar breytingar skuli bætast við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði verða viðeigandi brtt. lagðar fyrir Alþingi. Vakin skal aftur athygli á því að reglugerð 1612/68 er eina reglugerðin frá EB sem lögð hefur verið fyrir Alþingi til lögfestingar og er lögfest með þessu frv.