Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 13:44:50 (7874)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. utanrrh. fékk spurningar frá mér og hefur ekki haft uppi tilburði til að svara þeim. Ég lagði fyrir hv. formann félmn. spurningar við 2. umr. sem formaðurinn hefur svarað og þakka ég honum fyrir það. Svarið er skýrt af hennar hálfu, það kunna að koma til breytingar á þessari reglugerð okkur í óhag. Það mun ráðast af niðurstöðu fundar sem haldinn verður eftir að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið tekur gildi.
    Ég vil setja þá skoðun fram að ég sé ekki hvernig Íslendingar eiga að komast hjá því að gera þessar breytingar að samningnum gengnum í gildi. Meginstef samningsins er samræmingin, að sömu reglur gildi yfir allt svæðið og öll þjóðlöndin og einstök þjóðlönd hafi ekki sérreglur á þessu sviði. Íslendingar hafa undirritað samninginn og ég sé ekki hvaða stöðu þeir hafa til að skapa sér sérstöðu í þessu máli. Enn fremur rökstyður það skoðun mína í þessu umfram efni og innihald samningsins sjálfs að utanrrn. hefur fullyrt að þessar breytingar þurfi að gera. Það er í þeirri handbók sem ég vitnaði til og get sótt snarlega og lesið upp úr orðrétt fyrir hæstv. utanrrh. ef hann þess óskar.
    Annars vegar höfum við frá utanrrn., en það er það ráðuneyti sem hefur forræði málsins á hendi, þær fullyrðingar að þessar breytingar verði að gera. Hins vegar höfum við svar frá formanni félmn. sem vill ekki fullyrða það hvor hefur rétt fyrir sér í þessu máli. Það er strax áður en samningurinn hefur tekið gildi að menn eru farnir að setja fram mismunandi skoðanir á því hvað samningurinn þýðir. Meira að segja þingmenn innan sama þingflokks setja fram mismunandi skoðanir á því hvaða breytingar þurfi að gera og hvað samningurinn þýðir. Enn merkilegra er það fyrir þá sök að í hlut á sá flokkur sem hefur gert þetta mál að sínu máli árum saman og sérhæft sig í þessu máli. Það er því kannski tákn þess sem koma skal að verði þessi samningur að veruleika þá muni mönnum reynast erfitt að átta sig á því hvernig þeir eiga að haga sér, hvaða lagabreytingum menn verði að taka við á Alþingi til að uppfylla kvaðir samningsins.
    En ég vil ítreka, virðulegi forseti, spurningar mínar til hæstv. utanrrh. og óska eftir því að hann svari þeim. Afstaða utanrrh. til þessa máls verður að koma fram, sérstaklega eftir svar formanns félmn. sem er ekki samhljóða þeirri yfirlýsingu sem fram hefur komið frá utanrrn. í þessu þýðingarmikla máli.