Húsnæðisstofnun ríkisins

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 13:58:10 (7876)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni sú grein frv. sem lýtur að breytingum á stjórnskipun húsnæðismálastjórnar. Eins og rækilega hefur verið sýnt fram á í þessum umræðum er þar á ferðinni mikið miðstýringarákvæði. Þarna er á ferðinni miðstýringar- og valdasamþjöppunarferli sem hæstv. félmrh. hyggst knýja hér fram og taka sér nánast alræðisvöld í húsnæðismálum.
    Hæstv. ráðherra hefur jafnframt notað tækifærið í umræðum um þetta mál og ráðist með mjög sérkennilegum og ómaklegum hætti að varnarlausum starfsmönnum og stjórnendum Húsnæðisstofnunar. Ég hygg að hæstv. ráðherra væri þess vegna sæmast að kalla þetta frv. til baka á þessu stigi málsins og láta það ekki sjást meir hér á þessu þingi og út af fyrir sig ekki eftirleiðis. Í leiðinni væri við hæfi að hæstv. ráðherra bæðist velvirðingar á þeim ummælum sem hann með órökstuddum hætti hafði hér uppi og vó að starfsheiðri starfsmenna Húsnæðisstofnunar og stjórnenda þeirrar stofnunar.
    Í þessari 1. gr. felst mikil afturför frá gildandi ákvæðum um stjórn Húsnæðisstofnunar. Þetta er miðstýringar- og valdasamþjöppunarfrv. sem ég er algjörlega andvígur og ég segi því nei.