Húsnæðisstofnun ríkisins

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 14:29:20 (7886)


     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Hér koma ákvæðin hvert öðru sérkennilegra til atkvæða. Margt mætti segja um það bráðabirgðaákvæði sem afgreitt var hér áðan og hæstv. félmrh. meðal annarra studdi og lýsti þar með sérstöku trausti á núverandi framkvæmdastjóra Húsnæðisstofnunar ríkisins. Verður það væntanlega nokkuð lengi í minnum haft í ljósi þeirra samskipta við þá stofnun sem hæstv. ráðherra rakti hér í ræðu í gærkvöldi. Í raun og veru má segja að hæstv. félmrh. hafi tekið upp aðferð ónefndra ráðherra að reka framkvæmdastjórann í gær en ráða hann aftur í dag með þessu atkvæði.
    Hér er á ferðinni ákvæði til bráðabirgða II um að heimila félmrh. að selja eigur hönnunardeildar Húsnæðisstofnunar ríkisins sem búið er að gera fyrir nokkrum vikum síðan með skriflegum og þinglýstum kaupsamningi, löggerningi sem þegar liggur fyrir. Hæstv. samgrh. flutti hér frægt frv. í vetur til að heimila að flytja inn dýpkunarpramma sem ekki er aðeins búið að flytja inn í landið heldur var sokkinn líka og lá á hafsbotni eða hafði gert um nokkurra mánaða skeið. Þetta er sama aðferðin, þetta er prammaaðferðin við lagasetningu, að afla heimildar eftir á. Það er mjög athyglisvert að hæstv. ríkisstjórn kemur með hvert frv. á fætur öðru þar sem stendur til að afla lagaheimilda og réttlætingar eftir á á þegar orðnum hlut. Þessi prammaaðferð mun auðvitað verða lengi í minnum höfð og er ágætis samheiti yfir vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar við lagasetningu yfirleitt.
    Mönnum er að sönnu nokkur vandi á höndum, eins og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sagði hér áðan, þegar greiða á atkvæði við þessar aðstæður. Ég held að skást sé að mótmæla þessum vinnubrögðum með því að segja nei við þessu ákvæði þó svo það breyti út af fyrir sig ekki orðnum hlut, því lögbroti sem hæstv. ráðherra er í raun og veru að lýsa á hendur sér með því að óska eftir á lagaheimildar Alþingis fyrir hlut sem þegar er búið að framkvæma. Ég segi nei.