Evrópskt efnahagssvæði

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 14:44:56 (7890)

     Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Hér er komið til 3. umr. frv. til laga um Evrópskt efnahagssvæði, breyting á því frv. sem afgreitt var frá þinginu um miðjan janúar sl. Við þessa lokaumræðu málsins, sem gera verður ráð fyrir að þessi umræða sé, er rétt að nefna nokkur atriði sem tengjast þessu máli. Það sem hlýtur að vera okkur hv. alþm. efst í huga varðandi þetta mál er sú staða sem Alþingi Íslendinga er sett í með þeim samningi sem hér á að lögfesta. Það er verið að taka raunverulegt löggjafarvald úr hendi þessarar samkomu, Alþingis, sem stofnað var 1840 og efnt var til að nýju 1845, og þingið sett í þá dæmalausu aðstöðu að verða ómyndugt á fjölmörgum sviðum þjóðmála, sviðum sem telja verður þýðingarmikil og í rauninni skipta mestu máli fyrir þjóðina, afkomu hennar og framtíð, þ.e. efnahagsmál og atvinnumál og ýmsir þættir félagsmála sem og mörg atriði sem tengjast þessum málum. Þannig má með sanni segja að það sé þjóðlífið allt sem þessi samningur varðar og flest löggjafarsvið þótt með óbeinum hætti sé um suma þætti.
    Ástæðan fyrir því að málið liggur þannig er sú að samkvæmt samningnum og stöðu málsins er það aðeins Evrópubandalagið sem getur haft frumkvæði um lagasetningu og mótað löggjöf þó að aðrir aðilar að samningnum úr röðum EFTA-ríkjanna geti komið fram með frómar óskir þar að lútandi. Það er þannig Evrópubandalagið sem er að taka yfir raunverulegt löggjafarvald á samningssviðinu sem hér á að lögfesta. Eina ráðið, sem þessi samkoma hefur þegar hún fær mótaða löggjöf aðsenda frá ráðherraráði Evrópsks efnahagssvæðis, er að beita neitunarvaldi. Verði það gert þá er þannig um hnúta búið í samningnum að aðrir aðilar að honum áskilja sér rétt um gagnráðstafanir sem gert er ráð fyrir að séu ekki veigaminni heldur en það sem verið er að hafna af hálfu Alþingis.
    Þetta er sú staða sem þjóðþinginu er búin með þessu máli og við eigum eflaust eftir að minnast hennar hér ef samningurinn í raun gengur fram og verður staðfestur af öðrum en Alþingi Íslendinga og tekur þannig gildi. Þá eigum við eftir að minnast þeirrar aðstöðu sem meiri hluti Alþingis, ef að líkum lætur, hefur mótað fyrir þessa samkomu, þingið, og látið yfir sig ganga. Og það er ekki aðeins að við fáum löggjöfina fullbúna og aðsenda, forsendur fyrir löggjöf á þessari samkomu, þjóðþinginu, heldur er það auðvitað borin von fyrir þingmenn að hafa frumkvæði að lagasetningu sem á einhvern hátt gengur gegn ákvæðum þessa samnings. Menn geta auðvitað sýnt slíka pappíra hér í þinginu en það væri að brjóta þau lög sem setja á, þennan lögfesta samning, ef menn dirfðust að taka undir slíkan tillöguflutning. Það verður ekki lítið verk fyrir þá þingmenn sem taka hér sæti að setja sig inn í þessar aðstæður og átta sig á því hver markalínan liggur í þessum efnum hvað það er sem þýðir að hreyfa hér á samkomunni vegna þeirra laga sem í gildi eru, ef þessi samnningur verður lögfestur. Allt samningssviðið er þar undir. Samkvæmt 119. gr. samningsins er verið að lögfesta í raun viðaukana og öll fylgiskjölin á þessum tugþúsundum blaðsíðna sem liggja í þeim pakka sem hér er undir.
    Það er með öllu óskiljanlegt fyrir mig hvernig það má verða, virðulegur forseti, að Alþingi ætlar að leggja á sig þessa hlekki og standa þannig að máli fyrir nú utan það hvernig gengið er gegn sjálfri stjórnarskrá lýðveldisins, hvernig hún er brotin með þessum samningi sem hér er hugmyndin að lögfesta.
    Menn vísa til þess að hér sé ekki verið að binda hendur Íslendinga óafturkræft og það er rétt. Það er hægt að segja þessum samningi upp með árs fyrirvara að formi til. En hvernig halda menn að það verði í raun, virðulegur forseti, að komast út úr því neti, því þéttriðna neti sem hér er riðið og hér á að fanga í íslenskt efnahagslíf, hvernig halda menn að það verði að losna út úr gangvirkinu ef menn festast í því á annað borð? Það verður ekki auðvelt verk en það er þó það verk sem við hljótum að reyna að vinna, andstæðingar þessa samnings, að losa þjóðina út úr þessu neti fyrr en seinna, áður en hún festist svo í því að það liggi engin leið til baka.
    Hér gengur því miður fjöldi alþingismanna hálfblindur til leiks án þess í raun að hafa gert sér grein fyrir því hvað í þessu máli felst. Það er mín tilfinning, virðulegur forseti, að því miður sé staðan sú að ýmsir þeir, sem styðja þennan samning með atkvæði sínu, hafi sumir hverjir ekki gert sér grein fyrir því hvað í honum felst en hlutur þeirra er þó samt engu betri fyrir það því auðvitað eiga þingmenn skilyrðislaust að vita hvað er á ferðinni, ég tala nú ekki um í stórmáli sem þessu.
    Það var gert ráð fyrir því þegar samningurinn fyrst lá hér fyrir, málsgögn hans, um öndverðan maímánuð fyrir réttu ári síðan, að þetta mál gengi fyrr fram og alveg sérstaklega að lögin, lagabreytingarnar, sem gera yrði fyrir utan samninginn sjálfan og lögfesta hér, yrðu afgreiddar með öruggum hætti áður en samningurinn tæki gildi og miðað var við að það gerðist ekki síðar en í nóvember 1992, virðulegur forseti. Nú er maí 1993 og hver er staðan þá? Samkvæmt yfirliti sem ég hef fengið frá þingmáladeild þingsins er staðan sú 29. apríl sl. að af 68 boðuðum stjfrv. til breytinga á íslenskri löggjöf vegna þessa samnings höfðu aðeins verið lögfest 26 frv. á þeim tíma, verulegur minni hluti þeirra frv. sem ríkisstjórnin hafði

boðað um málið, þeirra 68 frv. sem boðuð höfðu verið og enn voru nokkur frv. ókomin til þingsins sem voru á þeim skrám sem reiddar voru fram, ekki bara í fyrra heldur á þessu ári, þann 30. mars sl. samkvæmt yfirliti sem fyrir liggur.
    Ég vil biðja virðulegan forseta að kalla hingað í þingsal hæstv. iðnrh. því ég þarf að eiga orðastað við ráðherrann vegna þessa máls og þeirrar stöðu sem liggur fyrir að því er varðar hans málasvið.
    Samkvæmt þessu, virðulegur forseti, er meiri hluti þeirra lagafrv., sem lögfesta átti á síðasta ári samkvæmt áformum ríkisstjórnarinnar, óafgreiddur í þinginu. Auðvitað er þetta þeim mun alvarlegra þar sem að í ýmsum tilvikum var af hálfu ríkisstjórnarinnar vísað til þess að í stað þeirra fyrirvara, sem kröfur voru uppi um af hálfu íslenskra stjórnvalda þegar þetta mál var á samningastigi, væri hugmyndin að koma vörnum við í íslenskri löggjöf samkvæmt heimildum og svigrúmi sem talsmenn þessa samnings fullyrtu að væri til staðar. En þetta svigrúm er ekki notað með skilmerkilegri hætti en hér liggur fyrir enda auðvitað í raun allt saman þrengra og minna heldur en orð var á gert.
    Eins og menn muna var það hugmyndin þegar þetta mál var til umræðu á undirbúningsstigi að koma við undanþágum varðandi ýmis málasvið, þar á meðal varðandi sjálfar náttúruauðlindir þjóðarinnar og landið sjálft. En hvernig hefur verið haldið á þeim málum? Jú, það er, virðulegur forseti, einn einasti fyrirvari sem sagður er tryggður samkvæmt gildandi íslenskri löggjöf sem fái náðarsamlegast að standa þrátt fyrir ákvæði þessa samnings, þ.e. lög varðandi fjárfestingu í fiskiskipum og frumvinnslufyrirtækjum sjávarafurða. En þessi eini fyrirvari er ekki meira í friði og hefur ekki meira skjól en svo að í nýlegu áliti stjórnskipaðrar nefndar, sem fræg hefur orðið undir nafninu tvíhöfða nefndin, er það eitt af aðaláhersluatriðum að rýmkað verði um íslenska löggjöf að því er varðar erlenda fjárfestingu einmitt á þessu sviði í sambandi við sjávarútveginn --- rýmkað verulega um það --- og þar mæla trúnaðarmenn stjórnarflokkanna og undir það er tekið af einum og öðrum í þessum atvinnurekstri í fyrirtækjum sem verið er að knésetja með þeirri stjórnarstefnu sem nú er uppi og bitnar á sjávarútveginum með þeim hætti sem tölur sýna, uppgjör síðasta árs með 8 milljarða beinan halla hjá fyrirtækjum í þessum greinum.
    Aðrir fyrirvarar varðandi náttúruauðlindir eru þannig að því er varðar landið og orkulindirnar að þá hafa frv. ekki sést. Engin frv. komið fram sem varða jarðhita í iðrum jarðar, sem varða virkjunarrétt fallvatna, frv. sem hæstv. iðnrh. staðhæfði að yrðu sýnd hér og afgreidd í þinginu fyrir síðustu áramót. Þau eru ekki enn þá komin frá ríkisstjórninni. Menn eru enn þá að gæla við það að þessi samningur hljóti staðfestingu áður en nýtt þing kemur saman, reglulegt Alþingi 1. okt. nk. Það er þannig meining ríkisstjórnarinnar sem stefnir hér að þinglokum þó ekkert liggi á um það að ljúka störfum Alþingis með fjölda óafgreiddra og óræddra mála og þá stöðu uppi sem þjóðin þekkir í atvinnumálum, í atvinnuleysinu sem ríður húsum víða um land, þá er það hugmyndin að senda þingið heim með þessa löggjöf óafgreidda í þýðingarmestu málum sem snerta þann óheillasamning sem hér á að gera. Samt á að senda þingið heim og gleyma þessu, gleyma þessum fyrirvörum sem þó áttu að fylgja og lögfesta hér í þinginu. Það er staðan, það eru efndirnar, þetta er allt saman á eina bók lært, virðulegur forseti, með miklum fádæmum. ( Forseti: Forseti vill upplýsa hv. þm. um að það hafa verið gerð boð eftir hæstv. iðnrh. svo hann kemur væntanlega innan tíðar.) Virðulegi forseti, ég vænti þess að ráðherrann birtist fljótlega. Ég hef ekki lokið máli mínu og vænti þess að hæstv. ráðherra verði kominn til fundar áður en það verður enda gerist það innan ekki langs tíma.
    Ég hef, virðulegur forseti, nefnt þá þætti sem blasa við Alþingi Íslendinga sérstaklega en það eru vissulega margir aðrir þættir sem snúa að þessu máli og þá er auðvitað nærtækast að víkja að því sem snertir kröfuna sem vísað var hér frá í raun öðru sinni af meiri hluta á Alþingi, kröfuna um það að þjóðin sjálf fái að segja álit sitt á þessum samningi sem hún hefur aldrei átt kost á í almennum kosningum þannig að alþingismenn, fyrir þá atkvæðagreiðslu sem hér er fram undan, viti um hug þjóðarinnar til þessa stórmáls. Verði það ekki gert, og því miður horfir svo að það gerist ekki fyrir lokaafgreiðslu þessa máls, þá er hér verið að ganga gegn lýðræði í landinu, eðlilegum sjónarmiðum, í raun stjórnarskrárvörðum rétti eða a.m.k. rétti sem stjórnarskráin gerir ráð fyrir að þjóðin geti haft í stórum málum. Þannig blasir það við að það á að hneppa þjóðina í fjötra þessa samnings án þess að hún fái að tjá hug sinn. Ég hef sagt það ítrekað og ég endurtek það hér enn að ég er sannfærður um það að fyrir þessum samningi er enginn meirihlutavilji meðal kjósenda í landinu. Það liggja fyrir vísbendingar um það, virðulegur forseti, í mögrum skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið og þar við bætist að það er alveg ljóst að ef heimiluð hefði verið almenn þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta mál þá hefði það orðið enn fleirum ljóst hvert innihaldið er í þeim pakka sem hér á að lögfesta, hvaða áhrif þessi samningur mun hafa fyrir mikilverðustu málefni þjóðarinnar í framtíðinni þannig að ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um það að sá meiri hluti, sem ætlar sér að lögfesta þetta mál og staðfesta þennan samning, hefur í raun ekki neitt umboð til þess. Það er auðvitað fráleitt, virðulegur forseti, að vísa til síðustu alþingiskosninga í þessu sambandi og telja að þeir sem nú standa að ríkisstjórn og sá meiri hluti sem hún styðst við hafi fengið eitthvert umboð til að ganga frá þessu máli í sambandi við úrslit síðustu kosninga. Það er svo langt frá því að það þarf í rauninni ekki að færa að því rök, málið var þá aðeins í deiglu, málið hafði þá engan veginn skýrst, uppi voru skýrir fyrirvarar af hálfu einstakra flokka um niðurstöðu samningaviðræðna sem þá stóðu enn yfir og málið var sáralítið á dagskrá eða mjög takmarkað a.m.k. í sambandi við almenna umræðu fyrir síðustu kosningar.
    Það eru því í raun, virðulegur forseti, út frá lýðræðislegum sjónarmiðum ólög sem verið er að innleiða hér með því að staðfesta þennan samning af hálfu þingsins, af meiri hluta á Alþingi Íslendinga sem ekki hefur fengið neitt sérstakt umboð til þess og sem veit ekki um hug þjóðarinnar og hefur lagst gegn því að hún fái að segja sitt orð í sambandi við þetta mál.
    Það er illt til þess að vita, virðulegur forseti, að það er ekki eingöngu sá hópur sem styður núv. ríkisstjórn sem greiðir götu þessa máls í gegnum þingið og er sá hópur þó ekki heill því þar eru meðal þingmanna, í því sem við köllum stjórnarliðið hér á Alþingi, einstaklingar sem sýnt hafa framsýni, kjark og þor til að ganga gegn þessu máli. Þeir þingmenn sem þar eiga hlut að máli eiga allan heiður skilið því þeir hafa breytt samkvæmt sannfæringu sinni, þeir hafa sýnt hetjuskap í þessu máli með því að leyfa sér að hafa sjálfstæða afstöðu í undirstöðuatriði sem varðar stöðu þjóðarinnar, sjálfstæði þjóðarinnar og þar hafa þeir gengið gegn þungum straumi og miklum þrýstingi í forustu þeirrar ríkisstjórnar sem hér situr enn í landinu. Við hljótum að minnast þess sérstaklega um leið og við hörmum það sem í stjórnarandstöðu erum að það skuli vera einstaklingar í röðum þingflokka í stjórnarandstöðunni sem í raun hafa greitt götu þessa máls og auðveldað ríkisstjórninni leikinn að koma þeim böndum á þjóðina sem felast í þessum samningi og það verður væntanlega geymt en ekki gleymt þegar mál verða gerð upp í komandi kosningum, hvort sem þær verða í lok reglulegs kjörtímabils eða fyrr.
    Það er, virðulegur forseti, rétt að hafa það í huga að það er einmitt í málum sem þessum, í stórmálum sem þessum sem reynir á og sem fram kemur í raun afstaða manna hér á Alþingi að því er varðar framtíðarmálefni þjóðarinnar. Þetta er ekki mál sem hverfur af sjónarsviðinu, þetta er ekki mál sem menn geta gleymt eftir atkvæðagreiðsluna og sem geymt er hjá einhverjum smáhluta framkvæmdarvaldsins á Íslandi. Þetta er mál sem mun minna á sig dag hvern héðan í frá ef það verður lögfesta vegna þess að fram hjá því verður ekki gengið, fram hjá því verður ekki komist. Það mun minna á sig í þeim aðsendu lögum og reglum sem framkvæmdarvaldinu er ætlað að hlíta og sem Alþingi Íslendinga er ætlað að stimpla inn í sambandi við afgreiðslu þingmála sem við fáum hér inn á okkar borð. Það er þessi afstaða, það er afstaða til þessarar stöðu mála sem kemur fram í atkvæðagreiðslum um þetta mál í stöðu flokka og í stöðu einstaklinga innan þingflokkanna.
    Vissulega ber okkur, virðulegur forseti, að hafa það í huga að þó að þetta mál sé langt fram gengið á Alþingi Íslendinga þá eru sund ekki lokuð, þá hafa þau ekki ráðist til hlítar á þingum annarra þjóðlanda sem ætlað er að taka afstöðu til samningsins og þurfa að staðfesta hann. Við höfum farið yfir það, virðulegur forseti, fyrr í umræðum hver staðan sé og hvaða líkur séu á því að þetta mál fái þá afgreiðslu hjá þeim 17 þjóðþingum sem þurfa að staðfesta það og ég ætla ekki að fara yfir það efni í mörgum orðum. Ég vil aðeins minna á að það er enn þá óvíst hver afgreiðslan verður. Það er aðeins á örfáum þingum ríkja innan Evrópubandalagsins sem mál þetta hefur fengið afgreiðslu, sennilega hefur ekkert þinga tekið afstöðu til þeirra breytinga sem fyrir liggja og fyrir áramótin síðustu voru það aðeins þrjú þing í ríkjum Evrópubandalagsins sem höfðu tekið afstöðu til samningsins eins og hann þá lá fyrir. Það mun því dragast nokkuð að samningur þessi gangi í gildi ef hann þá hlýtur staðfestingu.
    Virðulegur forseti. Ég inni eftir því hvort von er á því að hæstv. iðnrh. komi til þingfundar og ég átel það um leið að ráðherrar ríkisstjórnarinnar skuli ekki láta svo lítið að vera hér viðstaddir í þinginu þegar þetta mál er til lokaafgreiðslu. --- Getur virðulegur forseti upplýst það hvort hæstv. iðnrh. ætlar að ómaka sig til að koma í þingsal og hvort hann er væntanlegur? ( Forseti: Vegna orða hv. þm. um ríkisstjórnina vill forseti benda á að hæstv. utanrrh. er staddur hér og hlýðir á umræðuna. Það hafa verið send boð eftir hæstv. iðnrh. en forseti hefur ekki af honum frekari fréttir. Hann hefur örugglega fengið boðin og forseti getur lítið annað gert en að bíða eftir því hvort hæstv. ráðherra kemur. Ég vil benda hv. þm. á að hann á auðvitað rétt á að taka til máls að nýju ef ráðherra kemur.) Virðulegur forseti. Það vill nú svo til að við hæstv. utanrrh. höfum átt nokkur orðaskipti út af þeim frv. sem ég ætlaði að ganga eftir hjá hæstv. iðnrh., hvernig standi á því og hvernig hann meti stöðuna í sambandi við þau efni. Hæstv. utanrrh. veitti þá úrlausn sennilega sem hann treysti sér til í umræðu nýlega varðandi þessi efni. Þar kom það fram og fékkst staðfest að ekki hefði enn þá tekist að afgreiða þau mál sem hér um ræðir frá ríkisstjórninni, frv. varðandi jarðhitaréttindi og varðandi orku fallvatna og reyndar almennt um auðlindir í jörðu. Ég ætlaði að fá hér fram fyrir lok þessarar umræðu álit hæstv. iðnrh. á þeim efnum og vænti þess að kostur verði á því áður en umræðu þessari lýkur. Ég vil hins vegar ekki, vegna þeirra þingmanna sem hér eiga eftir að taka til máls, fara lengra út í efnisþætti málsins. Ég hef oft gert grein fyrir minni afstöðu til þessa stóra máls og ég vil aðeins segja það að lokum, virðulegi forseti, að það er mikið verk sem við eigum fyrir höndum, andstæðingar þessa samnings, að hnekkja honum fyrr en seinna því það verður okkar verkefni og það er okkar skylda að beita okkur að því ekki síðar heldur en þegar þetta frv. hefur hlotið staðfestingu.