Evrópskt efnahagssvæði

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 15:41:51 (7897)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Eins og ég hygg að glöggt hafi komið fram í fyrsta svari mínu til hv. 4. þm. Austurl. fjalla þau frv. sem nú er unnið að einmitt um hvort tveggja, virkjunarrétt vatnsfalla og auðlindir í jörðu, eignarhald á þeim, bæði jarðvarma og annan auð sem þar kann að vera að finna jafnt undir almenningum sem eignarlöndum. Þetta vil ég að komi skýrt fram.
    Ég vil líka staðfesta það að ásetningur minn og ríkisstjórnarinnar, að fram komi frv. um þetta efni í haust, er staðfastur. Hafi hv. 4. þm. Austurl. talið sig merkja einhvern mun á sannfæringarkrafti í fyrra svari mínu og hinu síðara, þá vil ég eyða þeim vafa úr hans huga með öllu. Það var enginn munur þar á, við erum jafnákveðnir í því og ég var fyrr í vetur að málið muni koma fram. Ég vil á það benda að þetta er ekki dægurmál, þetta er þvert á móti framtíðarmál sem er mjög mikilvægt að um takist sem víðtækust samstaða á þingi og með þjóðinni allri.