Evrópskt efnahagssvæði

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 15:54:17 (7900)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Varðandi starfáætlun iðnn. þá liggja þar ekki fyrir mörg óafgreidd mál nema svæðislýsingar smárása í hálfleiðurum sem vakti hér litla hrifningu í vetur. Að öðru leyti hefur hún nokkurn veginn hreint borð. Ég vil láta það koma fram að hv. formaður iðnn. hefur fallist á að það verði haldinn fundur núna einmitt til að fara yfir þessi eignarréttarmál sem við höfum verið að ræða um, þ.e. varðandi orku fallvatna og orkuna í iðrum jarðar. Ég mundi meta það mjög mikils ef hæstv. iðnrh. sæi sér fært að koma þessum gögnum á framfæri við nefndarmenn.
    Auðvitað er það alveg fráleitt að ætla sér að loka mál af þessu tagi inni hjá stjórnarliðinu einu. Það er alveg fráleitt. Þetta er mál þjóðarinnar allrar og stjórnarandstaða í dag verður gjarnan stjórn á morgun eins og menn þekkja þannig að ég held að menn eigi að átta sig á því að það er í raun og veru ekki við hæfi að vinna mál eins og þessi þannig að stjórnarandstaðan komi þar hvergi nálægt. Menn sjá auðvitað ,,fallíttið`` í sjávarútvegsmálunum sem víti til varnaðar í þeim efnum þar sem menn eru að fjalla um eina stærstu og merkustu auðlind þjóðarinnar og koma síðan á felgunni í mark að lokum með sprungið á öllum hjólum.
    Virðulegi forseti. Ég held það væri skynsamlegt af hæstv. iðnrh. að læra af þessu ,,fallitti`` í sjávarútvegsmálunum og kalla stjórnarandstöðuna til samstarfs að því er varðar umfjöllun um þau frv. sem hér hefur verið spurt um.