Evrópskt efnahagssvæði

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 15:56:08 (7901)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það skal ekki á mér standa að taka þeirri áskorun hv. 9. þm. Reykv. að leita samstarfs við stjórnarandstöðuna um úrlausn mála í þinginu. Það hefur reyndar mjög verið gert af hálfu míns ráðuneytis og minna ráðuneyta í samstarfi við bæði efh.- og viðskn. og hv. iðnn. Ég held að það sé líka alveg rétt sem fram kom hjá hv. þm. að um mál af þessu tagi þarf samstöðu. Hins vegar vil ég beina þeirri áskorun til þingmannsins úr því að ég er staðinn upp til andsvara, að þeim málum sem enn er ólokið í hv. iðnn., og ég ætla að séu ekki ágreiningsmál eins og m.a. vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum og enn mikilvægara frv. til laga um hönnunarvernd, verði senn lokið frá nefndinni.