Evrópskt efnahagssvæði

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 15:57:10 (7902)

     Steingrímur J. Sigfússon :

    Hæstv. forseti. Ég biðst velvirðingar á því að ég mun ekki hafa verið í þingsalnum þegar röðin var komin að mér á mælendaskrá áðan en sú er skýring á að í annríkinu þessa daga er fundað í flestum hornum og afkimum þinghússins og ég var á einum slíkum fundi skammt undan og var þess vegna ekki viðlátinn þegar röðin kom að mér.
    Ég hafði hugsað mér að fara yfir nokkur meginatriði þessara Evrópumála við þetta síðasta tækifæri á þessu þingi sem tengist umræðu um eitt af dagskrármálum Evrópska efnahagssvæðisins. Það er kunnara en frá þurfi að segja að þetta er orðin býsna löng lota frá því að hér hófust fundahöld um málið í ágústmánuði sl. og mikið vatn til sjávar runnið síðan. Reyndar er fróðlegt að fara yfir yfirlýsingar og heitstrengingar manna um gildistöku samningsins þá sem átti að vera fyrir sl. áramót og áform hæstv. þáv. ríkisstjórnar um það að hafa lokið meira og minna lögfestingu allra mála sem tengdust afgreiðslu samningsins um Evrópskt efnahagssvæði fyrir nóvemberlok ef ég man rétt, eins og það var áformað í ágústmánuði sl. Þá lá lífið við að sögn hæstv. utanrrh. og ríkisstjórnarinnar og hér var fundað nætur og daga til þess að ljúka umræðum. Reyndin hefur síðan orðið önnur og margt af því sem sagt var gengið eftir varðandi óvissuna í þessu máli og næsta hlálegar eru t.d. samningaviðræðurnar í desembermánuði sl., rétt fyrir áramótin, þegar lífið virtist liggja við, og lá við að sögn hæstv. utanrrh., að ljúka afgreiðslu allra málanna fyrir áramót, þar á meðal samningnum við Evrópubandalagið um fiskveiðar. Ekkert af þessu er komið í gildi og allt er þetta enn þá í óvissu fyrir utan þetta eina sem hæstv. utanrrh. ákvað að gefa Evrópubandalaginu í forgjöf og tók gildi 15. apríl sl., þ.e. aukið frelsi í innflutningi á ýmsum landbúnaðarvörum og er auðvitað mikil endemi hvernig að því öllu saman var staðið.
    Það má margt segja um þessa sögu alla, allt frá því að snemma árs 1989 var ákveðið að fara sameiginlega í könnunarviðræður við Evrópubandalagið af hálfu EFTA-ríkjanna á fundi leiðtoga EFTA-ríkjanna í Ósló eins og kunnugt er. En sú braut öllsömul hefur reynst hlykkjóttari og hólóttari heldur en þá var spáð fyrir og sér reyndar ekki fyrir endann á henni enn. Enginn einasti spotti hefur þar reynst vera með bundnu slitlagi eða sæmilega beinn og breiður og hrakningasaga þessa máls í gegnum samningaviðræðurnar, í gegnum meðferð þess hér á þingi, í gegnum samskipti samningsaðilanna er með ólíkindum. Sennilega hefur annað fordæmi hliðstætt aldrei birst okkur Íslendingum í viðræðum sem við höfum tekið þátt í nema ef vera skyldi þrengingarnar í Uruguay-umferð GATT-viðræðnanna.
    Það er rétt að rifja það upp og minna á það við lokaafgreiðslu málsins að um eitt hafa menn lengst af verið sammála í þessu máli og það er það að þetta er eitt stærsta og í raun og veru óumdeilanlega stærsta milliríkjamál sem við Íslendingar höfum haft til umfjöllunar á okkar vegum á lýðveldistímanum. Um það hafa menn verið sammála. Þess vegna hafa mér alltaf þótt einkennilegar þverstæður í málflutningi þeirra manna sem hafa á hinn bóginn neitað hvoru tveggja, að horfast í augu við stjórnarskrárþátt málsins en eins og kunnugt er liggja fyrir mjög rökstuddar skoðanir sem ganga í þá átt að löggilding þessa samnings standist ekki ákvæði stjórnarskrárinnar. Hitt er þó enn sérkennilegra að þeir hinir sömu menn sem í öðru orðinu tala um mikilvægi málsins og þýðingu og stærð, og það sé það mikilvægasta og stærsta á lýðveldistímanum, skuli í hinu orðinu leggjast gegn því að þjóðin fái þá að segja álit sitt á því í þjóðaratkvæðagreiðslu. Enn furðulegra er það nú þegar í hlut eiga heittrúaðir menn, sanntrúaðir menn eins og hæstv. utanrrh. sem eins og kunnugt er fyrir mörgum missirum síðan tók trú á þetta mál og hefur ekki gengið af henni síðan, virðist trúa því betur en nokkru öðru hér í heimi að þarna sé lausnarorðið fundið, þarna sé frelsunarvegurinn, þarna sé vegabréfið inn í 21. öldina og guð má vita hvað sem út úr hæstv. ráðherra hefur oltið. Enn furðulegra er það að þessi sanntrúaði og sannfærði maður skuli þá ekki fagna því tækifæri að láta þjóðina segja sitt álit á sköpunarverkinu. Ég hef aldrei fengið það til að ganga upp, annars vegar þennan málflutning boðenda trúarinnar, hæstv. utanrrh. og hans fylgisveina, að hér sé á ferðinni þetta stóra og mikla hagsmunamál og jafneinboðið fyrir íslenska hagsmuni og þeir vilja vera láta en hins vegar sé ekki nokkurt vit í því að þjóðin fái að segja sitt álit.
    Ég er alveg sannfærður um það að þetta er einhver ólánlegasta afstaða sem lengi hefur verið tekin í stórmáli á okkar utanríkismálasviði varðandi okkar utanríkishagsmuni. Það er ekki nokkur vafi á því í mínum huga að íslenska þjóðin hefði unað niðurstöðunni í þessu máli miklu betur en ella hver sem hún hefði orðið, hvort sem samningurinn hefði reynst njóta meirihlutastuðnings eða ekki ef þjóðin hefði sjálf fengið að dæma í því máli. Þannig hefðu menn helst getað orðið á eitt sáttir um að una niðurstöðunni að það hefði þó legið fyrir að meiri hlutinn hefði fengið að ráða. Þessi óvissa, sem mun verða áfram við lýði og fylgja okkur á komandi árum ef svo fer sem horfir að þessi samningur verði að veruleika og m.a. blandast inn í áframhaldandi umræður um það hvort þessi gjörningur standist stjórnarskrá lýðveldisins óbreytta, mun verða okkur til vandræða. Hún mun kljúfa þjóðina upp í fylkingar og gera það að verkum að það tekur mun lengri tíma en ella hefði þurft að vera að jafna sig á átökum um þetta mál.
    Ég er fyrir mitt leyti alveg sannfærður um það að sú réttaróvissa, sem er stofnað til með lögfestingu samningsins um Evrópskt efnahagssvæði án þess að breyta íslensku stjórnarskránni, mun hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér. Það liggur í hlutarins eðli vegna þess refsivalds sem erlendar stofnanir fá með samningnum að þegar að því kemur að beita því með íþyngjandi hætti gagnvart t.d. íslenskum lögaðilum þá munu þeir reyna að koma sér undan þeirri refsingu með því að láta reyna á lögmæti samningsins. Hvaða íslenskt fyrirtæki, sem sæti uppi t.d. með skaðabótagreiðslur upp á einhverja tugi milljóna kr. hafandi fengið á sig sekt frá eftirlitsstofnun Evrópska efnahagssvæðisins eða dómstóli, sem fá vald til þess

að sekta menn og framkvæma aðfararhæfa úrskurði hér uppi á Íslandi, mun ekki reyna að verja sig fyrir slíkri hegningu, reyna að losna undan því t.d. að borga slíkar sektir? Telja menn ekki líklegt að menn muni þá láta reyna á lögmæti samningsins? Jú, það tel ég vera og þá mun að sjálfsögðu reyna á það fyrir Hæstarétti, því þangað munu menn skjóta spurningunni um stjórnarskrárþátt málsins, hvort samningurinn, lögfesting samningsins að óbreyttri stjórnarskránni hafi staðist og þá mun að sjálfsögðu engu breyta þar um ræðuhöld eða heitstrengingar manna á Alþingi, dómendurnir fara ekki eftir því, þeir dæma samkvæmt lögunum en ekki einhverjum skoðunum þeirra manna sem stóðu að lagasetningunni á sínum tíma. Í þessu tilviki verður það íslenska stjórnarskráin og túlkun á ákvæðum hennar sem mun ráða úrslitum.
    Ég skil ekki hvers vegna t.d. þeir, sem trúa á þennan samning sem einhverja varanlega lausn í samskiptamálum Íslands og Evrópubandalagsins, tóku ekki það ráð að eyða fyrir fram þessari óvissu ef þeir þá meina það sem þeir segja að þeir hafi reiknað með því og ætlist til að þessi samningur standi um langa framtíð. Að manni læðist auðvitað sá grunur að hér sé um einn blekkingavef að ræða og þessu fyrirbæri sé ekki ætlað langt líf af hálfu þeirra sem þó eru að reyna að selja það þannig hér uppi á Íslandi.
    Í hinum EFTA-ríkjunum, flestum ef ekki öllum, óx þeirri skoðun mjög hratt fylgi þegar leið á samningaviðræðurnar um Evrópskt efnahagssvæði að sú niðurlægjandi staða, sem þátttakendum í svæðinu eða aðilum að samningnum EFTA-megin frá væri ætluð, gæti auðvitað ekki gengið sem eitthvert framtíðarfyrirkomulag fyrir fullvalda ríki, sjálfstætt ríki. Menn gætu ekki látið bjóða sér þá hjáleiguaðstöðu sem fælist í því að taka við lagafyrirmælunum og tilskipununum frá Evrópubandalaginu án þess að hafa nokkurt frumkvæði við gerð þeirra sömu lagaákvæða og vera skuldbundnir til þess samkvæmt samningi að láta þau ganga óbreytt í gildi í sínum heimalöndum. Það er ekki nokkur vafi á því að þegar samningaviðræðurnar höfðu tekið þessa stefnu þá óx þeim byr á t.d. hinum Norðurlöndunum þremur sem sögðu: Af tvennu illu er þá skárra að ganga bara í EB. Þá höfum við þó a.m.k. einhvern pínulítinn möguleika til þess að hafa einhver áhrif á það sem þarna er verið að ráðslaga.
    Það er svo annað mál hvort það var og er rétt mat hvort sem heldur er fyrir þá svo ekki sé talað um okkur Íslendinga. Samt sem áður er það nú svona að þó að þetta liggi fyrir og hafi haft áhrif á gang mála hjá hinum Norðurlöndunum, þó það liggi fyrir þar að þar þurftu menn að beita þeim ákvæðum stjórnarskrárinnar sem kalla á aukinn meiri hluta og/eða þjóðaratkvæði til þess að lögfesta samninginn, þá berja talsmenn hans hér höfðinu við steininn og neita öllum slíkum óskum, hvort sem heldur er kröfum tugþúsunda Íslendinga með undirskriftum um þjóðaratkvæði eða réttmætum kröfum bæði stjórnarandstöðunnar og fjölmargra löglærðra manna um að öruggara sé eða beinlínis nauðsynlegt að breyta stjórnarskránni.
    Þetta er allt saman heldur nöturlegt, hæstv. forseti, og verður víst seint sagt að vel hafi tekist til um lögfestingu þessara þátta hér uppi á Íslandi enda ein afleiðingin sú að þjóðin er þverklofin í málinu. Um þetta eru, hafa verið og verða eflaust því miður áfram mjög harðar deilur eins og að málinu hefur verið staðið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Það er ekki hægt að kalla farsæla niðurstöðu. Vegabréf inn í nýja öld sem þjóðin er þverklofin um, það er ekki mjög gæfulegur pappír fyrir þá hina sömu þjóð að ætla að byggja framtíð sína á. Auðvitað liggur það alveg ljóst fyrir að þeim þætti málsins hefur ríkisstjórnin með öllu klúðrað að ná að skapa um þetta einhverja samstöðu.
    Það eru ekki efni til, hæstv. forseti, að fara að eyða löngum tíma í efnisþætti málsins jafnþrautræddir og þeir eru orðnir hér í þinginu og ég mun ekki gera það en koma þó lítilega að einstökum þáttum fyrst og fremst vegna þess að nauðsyn beri til að ræða stöðu þeirra nú.
    Þá kem ég að sjávarútvegssamningnum og stöðu þeirra mála. Eins og kunnugt er lagði hæstv. utanrrh. ofurkapp á það að fá sjávarútvegssamninginn staðfestan hér um sl. áramót þó það lægi þá þegar fyrir að af lögfestingu eða gildistöku EES-samningsins í heild yrði ekki fyrr en í fyrsta lagi á miðju þessu ári og fljótlega upp úr því kom í ljós að því mundi enn seinka. Ég spurði hæstv. utanrrh., það mun hafa verið í marsmánuði, hvar þessi sami sjávarútvegssamningur sem lífið lá á að afgreiða um áramótin væri nú staddur. Í ljós kom að hæstv. utanrrh. hafði legið á skjölunum, fullgildingarskjölunum, og Ísland og Evrópubandalagið höfðu ekki skipst á fullgildingarskjölum þannig að sjávarútvegssamningurinn gengi í gildi. Nú óska ég eftir því að hæstv. utanrrh. svari á nýjan leik þessari spurningu á þessum drottins degi sem mun vera 5. maí, anno domini 1993: Hvar er sjávarútvegssamningurinn við EB staddur nú? Hvar eru skjölin? Á Evrópubandalagið að fá sín 3.000 tonn af karfa hér á þessu sumri eða þessu hausti hvað sem líður gildistöku samningsins um Evrópskt efnahagssvæði þó ekkert bendi nú til þess að hann komi yfirleitt í gildi á þessu ári? --- Hæstv. forseti, er hæstv. utanrrh. ekki viðstaddur umræðuna? Eða er hugmyndin að halda þessu áfram án þess að hæstv. utanrrh. láti svo lítið að vera viðstaddur? ( Forseti: Forseti vill fyrst taka fram að ekki er ætlast til þess að háreysti sé á þingpöllum eða afskipti af störfum í þingsal. Í annan stað skal forseti gæta að því hvort utanrrh. getur verið við umræðuna --- hann er þegar kominn í salinn þannig að hv. ræðumaður getur haldið áfram sinni ræðu.)
    Hæstv. forseti. Ég vildi fá að leggja þessa spurningu fyrir hæstv. utanrrh.: Hvar er tvíhliða samningur Íslands og Evrópubandalagsins um samskipti á sviði sjávarútvegsmála og samningsákvæði um skipti á svokölluðum gagnkvæmum veiðiheimildum, sem reyndar alls ekki eru það, á vegi staddur? Hefur verið skipst á fullgildingarskjölum? Fær Evrópubandalagið sín 3.000 tonn af karfa á þessu sumri eða þessu hausti eða ekki? Getur hæstv. utanrrh. svarað því endanlega fyrir hvað varðar yfirstandandi ár í ljósi þess að ekkert bendir til að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði gangi í gildi á þessu ári yfir höfuð?

    Það er ástæða til að spyrja m.a. vegna þess að hæstv. utanrrh. hefur tekið það upp á sína eik að því er ég best veit, selt sér algjört sjálfdæmi í því að láta einhverja afmarkaða þætti þessa samnings ,,de facto`` ganga í gildi gagnvart Evrópubandalaginu. Þá á ég við þau ákvæði samningsins eða bókana með honum sem varða t.d. viðskipti með landbúnaðarvörur eða innflutning á ávöxtum eða grænmeti eða hvað það nú er. Þau furðutíðindi hafa nefnilega borist að hæstv. utanrrh. hafi af sérstakri greiðasemi og velvild í garð Evrópubandalagsins ákveðið að gefa þeim í forgjöf gildistöku á afmörkuðum þætti þessarar samningagerðar. Auðvitað dettur manni þá í hug að greiðasemi hæstv. utanrrh. ríði ekki við einteyming og hann hafi ákveðið að gefa Evrópubandalaginu karfann líka í öllu falli á þessu ári. Því ekki það? Enga fengum við loðnuna eins og kunnugt er. Þrátt fyrir allar heitstrengingarnar og loforðin um annað, þá fór það nú svo að yfir 100 þús. tonn af loðnukvótanum sem við Íslendingar áttum sjálfir urðu eftir óveidd í sjónum, hvað þá grænlenski kvótinn, það þarf nú ekki að minnast á hann. Það er því alla vega ljóst að á þessari vertíð urðu okkur ekki miklar hagsbætur úr þessum samskiptum við Evrópubandalagið ef þeir eiga eftir að fá sinn karfa.
    Reyndar er það svo að annað hvort við þetta tækifæri eða annað sem kann að gefast þegar frv. til laga á verksviði landbrh. um viðskipti með landbúnaðarvörur eða innflutningsmálefni þess koma á dagskrá, ef síðar verður hér fyrir þinglok, þá þurfum við að ræða saman um það mál, ég, hæstv. utanrrh. og hæstv. núv. landbrh. sem hefur farið með fleipur og ósannindi um það hvernig staðið var að samningaviðræðum um landbúnaðarmál, m.a. fullyrti hann hér úr þessum ræðustóli fyrir ekki löngu síðan að það hafi verið tekin um það sérstök ákvörðun í tíð fyrri ríkisstjórnar að sinna ekki þeim þætti samningaviðræðnanna um EES sem sneri að landbúnaðarmálum og borið það upp á landbrn. að það hafi ekki sinnt þeim málum sem er lygi, rakalaus lygi. Um þann þátt sem snýr að utanrrn., sem eins og var stundum minnt á fór með forræði málsins, stjórnskipulega séð, þá er auðvitað hæstv. utanrrh. til svara um það.
    Ég hef aflað gagna um það hvernig þessi landbúnaðarþáttur samningaviðræðnanna um EES kom inn í málið og hef m.a. í því skyni ritað landbrn. bréf og óskað eftir greinargerð frá landbrn. um þátttöku þess í öllu samningaferlinu. Nú er það auðvitað ljóst að landbrn. tók þátt í því á ýmsan hátt, nánast frá byrjun, t.d. sinnti embætti yfirdýralæknis ýmsum þáttum þessa máls sem varða heilbrigðismál og sjúkdómavarnir og annað því um líkt. Sömuleiðis tók landbrn. þátt í ákveðnum starfshópum sem settir voru upp í stjórnkerfinu varðandi málið. Þannig að halda því fram að það hafi verið tekin um það einhver prinsippákvörðun að sinna ekki þessum viðræðum af hálfu landbrn. er auðvitað fráleitt.
    Svo er það líka kunnara en frá þurfi að segja að lengst af framan af viðræðunum stóð alls ekki til að landbúnaðarmál yrðu hluti af samningagerðinni. Þannig er það síðast á fundi í júní 1990 sem samningamenn Íslands og Samningamaður Íslands --- með stórum staf --- Hannes Hafstein, fullvissa embættismenn í landbrn. um það að ekki standi til að samningurinn taki til landbúnaðarmála. Þetta höfum við skjalfest. Það er fyrst í október 1990 sem svonefndur ,,cohesion-listi`` kemur fram og um hann verður uppljóst. Frá og með þeim tíma fylgdust að sjálfsögðu bæði ráðuneytin mjög grannt með gangi mála og þetta veit ég að hæstv. utanrrh. getur staðfest. Fyrir samningatæknina, eins og henni var síðan beitt í aðalsamninganefnd, svarar að sjálfsögðu hæstv. utanrrh. og mér er að meinalausu þó að starfsfélagi hans í ríkisstjórninni, hæstv. núv. landbrh., ráðist á hann með dylgjum í því sambandi.
    Þessu vildi ég koma á framfæri, hæstv. forseti, hvað varðar landbúnaðarþátt þessa máls og bera til baka og vísa til föðurhúsanna leiðindarógburði hæstv. núv. landbrh. um að þeim málum hafi ekki verið sinnt sem skyldi í tíð fyrri ríkisstjórnar. Reyndar er það æðihvimleitt að hæstv. núv. landbrh. á sér yfirleitt ekki aðrar málsbætur eða annað erindi í ræðustól, hvorki á Alþingi né á fundum annars staðar á landinu, en að reyna að skjóta sér í skjól af því að þessu eða hinu hafi verið klúðrað í tíð fyrri ríkisstjórnar sem er svo sem skiljanlegt því að af litlu hefur hæstv. landbrh. að státa hvað varðar eigin afrek.
    Ég tel hins vegar að hæstv. utanrrh. hafi á ýmsan hátt með fullkomlega ósæmilegum hætti verslað með hagsmuni landbúnaðarins í þessum samningum og það liggur auðvitað alveg ljóst fyrir að hæstv. utanrrh., með opnum augum, seldi vissa hagsmuni landbúnaðarins fyrir það sem hann taldi vera mögulega ávinninga á sviði sjávarútvegs, þ.e. hugmyndafræðin gekk út á það að stinga dúsu upp í suðurríki Evrópubandalagsins með rýmkuðum viðskiptareglum fyrir m.a. suðrænar landbúnaðarvörur gegn því að þau létu þá frekar yfir sig ganga þá þætti samninganna sem vörðuðu sjávarútvegsmál. Það tekur auðvitað steininn úr þegar hæstv. utanrrh. ákveður svo að láta þennan þátt samningagerðarinnar sem varðar viðskipti með grænmeti ganga í gildi í forgjöf gagnvart Evrópubandalaginu og sagan segir að það hafi verið gert án þess að hæstv. landbrh. hefði hugmynd um það. Það væri fróðlegt ef hæstv. utanrrh. gæti í öðru lagi svarað því --- sem er þá önnur spurningin af því það er gott að hafa þetta tölusett, ekki satt, hæstv. utanrrh., í fyrsta lagi, í öðru lagi o.s.frv. --- ef hæstv. ráðherra vildi í öðru lagi svara því hvort það sé rétt sem mér hefur borist til eyrna að hæstv. utanrrh. hafi ákveðið að þessi þáttur samningagerðarinnar gengi í gildi 15. apríl sl. án þess að hafa um það samráð við hæstv. landbrh. Það væri upplýsandi um andrúmsloftið í hæstv. núv. ríkisstjórn hvort svo sé.
    Það er svo, hæstv. forseti, auðvitað dálítið merkilegt að skoða stöðu mála nú í ljósi þess hver þróunin hefur orðið í Evrópuumræðunni allri saman, bæði hér uppi á Íslandi og ekki síður þó úti á meginlandi Evrópu. Auðvitað erum við að tala um þetta að mörgu leyti í gjörbreyttu umhverfi frá því sem var fyrir tæpu ári síðan, þ.e. áður en hin sögulega atkvæðagreiðsla fór fram í Danmörku um Maastricht-samkomulagið. Það hafa auðvitað orðið geysilegar breytingar á öllum aðstæðum og öllum viðhorfum manna á þessum tíma og ber þar auðvitað margt til. Í fyrsta lagi hefur almenningur í Evrópu vaknað til stóraukinnar vitundar um þessi mál og stóraukin andstaða hefur auðvitað komið fram, bæði í Evrópubandalagsríkjunum, svo sem í Bretlandi og Danmörku, við samrunaferlið og Maastricht-áætlunina en líka í EFTA-ríkjunum, t.d. á hinum Norðurlöndunum þar sem skoðanakannanir sýna hver á fætur annarri að á öllum Norðurlöndunum þremur sem eru í EFTA fyrir utan Ísland, þ.e. í Finnlandi, Svíþjóð og Noregi, hefur andstaðan við það að taka þátt í eða ganga inn í Evrópubandalagið og Evrópusamrunaferlið stóraukist. Mönnum er það auðvitað mjög til efs að það fáist nokkurn tímann samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu í Noregi svo dæmi sé tekið að þeir verði aðilar að þessu batteríi.
    Auðvitað er fáránlegt að tala um þessa hluti nú án þess að taka þessa gjörbreyttu mynd inn í dæmið. Svo langt voru menn gengnir hér á fyrri hluta sl. árs að menn töluðu meira og minna um það að norrænt samstarf væri að líða undir lok, þ.e. í þeirri mynd sem við höfum þekkt það, í formi samráðs Norðurlandaþjóðanna fimm sem færi fram á norrænum vettvangi og menn töluðu um það fullum fetum að það gáfulegasta sem Norðurlandaþjóðirnar gerðu væri að fara að leita sér að húsnæði niðri í Brussel til þess að geta haldið sína fundi þar þegar þær hittust allar á þeim vettvangi. Menn tala ekki lengur þannig. Menn eru sem betur fer búnir að læra það af reynslunni sl. ár að menn gefa sér ekki lengur hlutina fyrir fram, jafnvel ekki hinir hrokafyllstu í hópi evrópskra stjórnmálamanna sem hafa þó orðið sekir um og uppvísir að ótrúlegu dómgreindarleysi hvað varðar viðhorf almennings til þessara mála. Auðvitað er það sögulegt hvernig evrópskir stjórnmálamenn í Danmörku, Frakklandi, Bretlandi og auðvitað á Íslandi, hafa fengið á kjaftinn í gegnum almenningsálitið sem hefur reynst á allt annarri bylgjulengd heldur en þeir sjálfir. Það er auðvitað sögulegt að þegar allt batteríið í Danmörku, allir stjórnmálaflokkarnir sem komast á blað fyrir utan einn, allt ,,establishmentið`` telur einboðið að ganga í Maastricht, þá fellir danska þjóðin það. Sömuleiðis var það auðvitað sögulegt í Sviss að þar skyldi meiri hluti, bæði í kantónunum og meiri hluti þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu fella aðild að EES. Sömuleiðis var það sögulegt að í Frakklandi, forusturíki Evrópusamrunans, skyldi muna örfáum kommum að sjálft Maastricht-samkomulagið félli. Allir vita um andstöðuna í Bretlandi. Það liggur fyrir að fengi breska þjóðin að segja sitt álit yrði Maastricht-samkomulagið kolfellt. Það er fyrst og fremst á bláþræði, á örmjóum meiri hluta í breska þinginu sem það mál hangir þar. Og svo yrði hér á Íslandi að mínu mati, fengi þjóðin að segja sitt álit. Ég held reyndar að hún sé að gera það á vissan hátt með því að gefa núverandi hæstv. ríkisstjórn og forustumönnum stjórnarflokkanna einhverjar lægstu einkunnir sem sést hafa í skoðanakönnunum hér á landi frá upphafi vega.
    Þannig er nú það og þess vegna eru þessi mál að sjálfsögðu ekki til neinnar endanlegrar afgreiðslu hér, það er auðvitað ekki svo. Hér er ekki verið að setja punktinn aftan við umræðu um þessi Evrópumál eða þróun þeirra til langs tíma litið, það er ég sannfærður um. Þær forsendur eru ekki fyrir hendi, málin hafa ekki verið undirbyggð þannig og svo margt er enn á huldu, svo margt er enn í fulkominni óvissu varðandi framtíðina að jafnvel hinir hrokafyllstu í hópi evrópskra stjórnmálamanna eru hættir að gefa sér hlutina fyrir fram, ganga að þeim sem gefnum.
    Enn sem komið er hefur einungis mikill minni hluti EB-ríkjanna samþykkt samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Ef ég man rétt voru það þrjú ríki um síðustu áramót eða þangað til fyrir skemmstu síðan og reyndar hef ég ekki heyrt að nein hafi bæst við í þann hóp. Sum þeirra, eins og til að mynda Spánn, hafa beinlínis tekið samninginn af dagskrá sinna þjóðþinga. Spænska ríkisstjórnin kallaði eins og kunnugt er til baka staðfestingarfrumvarp um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði fyrir síðustu jól og mér er ekki kunnugt um að það frv. hafi verið lagt þar fram á nýjan leik. Þvert á móti hefur spænska stjórnin og spænska þingið mótað þá afstöðu að þeir muni ekki snerta á samningnum um Evrópskt efnahagssvæði fyrr en þá að búið er að afgreiða Maastricht-samninginn innan Evrópubandalagsins í öllum ríkjunum. Og það er langt í land með það eins og kunnugt er. Þannig er málið enn í fullkominni óvissu. Sömuleiðis eru aðildarumsóknir hinna EFTA-ríkjanna í mikilli óvissu, a.m.k. Noregs og væntanlega einnig staða Sviss. Úr því að Sviss tók sér það fyrir hendur að fella samninginn um Evrópskt efnahagssvæði á það væntanlega nokkuð erfitt með að kyngja inngöngu í Evrópubandalagið sjálft. Þannig er auðvitað vindurinn nú allur á móti þessari þróun og þess vegna væri það langskynsamlegast af okkur Íslendingum að fara okkur hægt og gera ekkert það í þessum efnum sem í ljósi þróunarinnar næstu mánuði eða missiri yrði bersýnilega orðið óskynsamlegt eða okkur óhagstætt.
    Það er enginn vafi á því í mínum huga að það sem þjónaði okkar hagsmunum best og það sem íslenska þjóðin vill er einfaldur viðskiptasamningur við Evrópubandalagið um okkar viðskipti og síðan samvinna við þau lönd og það bandalag á þeim sviðum sem við óskum eftir að vera í samstarfi við. Þannig er auðvitað fyrir eina smáþjóð með mikla sérstöðu eins og okkur Íslendinga langfarsælast að leysa þessi mál. Með einföldum viðskiptasamningi sem er framkvæmdur þannig að yfir honum er engin yfirbygging önnur en samráð samningsaðilanna og eftirlit með framkvæmd hans á svæði hvors um sig. Síðan gætum við eftir atvikum gert samstarfssamninga eða verið þátttakendur í áætlunum ríkja Evrópubandalagsins á sviði menningar, vísinda og menntunar eftir því sem við óskuðum eftir eða teldum okkur hagstætt. Í þannig farvegi hafa þessi samskipti verið og það með ágætum. Mér er t.d. ekki kunnugt um að í nokkurt skipti hafi strandað á því að við Íslendingar gætum gerst aðilar að einhverjum áætlunum eða verkefnum ríkja Evrópubandalagsins á sviði menntunar, menningar eða vísinda ef við höfum óskað eftir því og leitað eftir því.

Ég veit ekki annað en því hafi jafnan verið tekið fagnandi að Ísland gerðist aðili að slíku. Við höfum yfirleitt notið þar skilnings og velvildar og að mörgu leyti náð kjörum sem eru okkur hagstæð og með vissum hætti notið þar smæðar okkar og sérstöðu og þó þeirrar virðingar sem við þrátt fyrir allt höfum notið sem sjálfstæð lýðræðisþjóð. Ég er alveg sannfærður um að í þeim farvegi væri best að þróa þessi samskipti áfram.
    Margt hefur verið merkilegt sagt um kostina sem fylgdu þessari samningagerð og er ég þá ekki síður að tala um hina óbeinu hagsmuni sem af því hljótist, t.d. þá að þetta sé gott vegna þess að margt sé ágætt í löggjöf og tilskipunum Evrópubandalagsins og það sé þarft fyrir okkur að taka það hér upp, að þetta verði til þess að við förum í gegnum lagasafnið og endurbætum þar ýmislegt, tökum upp réttindaákvæði á sviði vinnumarkaðar og neytendamála o.s.frv. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnast þetta harla sérkennileg rök. Hvað hefur komið í veg fyrir eða hvað mundi koma í veg fyrir að við tækjum hvað eina það upp úr löggjöf Evrópubandalagsins eða nágrannaríkjanna sem okkur sýndist okkur verða til hagsbóta? Hefur það ekki verið þannig að við höfum iðulega og reyndar oftast leitað fordæma t.d. á hinum Norðurlöndunum þegar við höfum verið að endurskoða og yngja upp okkar lagaákvæði? Ég hélt það. Auðvitað skiptir það nákvæmlega engu máli í þessu sambandi hvort við erum aðilar að samningi um Evrópskt efnahagssvæði eða hvað þá heldur aðilar að Evrópubandalaginu. Við getum að sjálfsögðu leitað þangað fordæma um atriði í okkar löggjöf og varðandi okkar réttindamál hvers konar, öll sem okkur sýnist rétt eins og við getum leitað þeirra til Bandaríkja Norður-Ameríku eða hvert þangað sem skynsamleg ákvæði er að finna á meðan við höfum fullt sjálfstæði í þeim efnum. Því lýkur hins vegar með aðild okkar að samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Eftir það getum við ekki valið og hafnað og haft sumt eins og það er í Danmörku, annað eins og það er í Finnlandi, enn annað eins og það er í Þýskalandi og það fjórða eins og það er í Bandaríkjunum. Það mun ekki verða hægt vegna þess að við skuldbindum okkur til að búa við hinn evrópska rétt og annað ekki. Auðvitað eru þetta engin rök og ef eitthvað er öfugsönnun. Okkar staða takmarkast mjög mikið hvað þetta snertir. Þannig er það þegar farið er yfir það í lokin, hæstv. forseti, sem um þetta hefur verið sagt að margt orkar það harla kynlega á mann.
    Um hina efnislegu þætti, þ.e. þær hagsbætur sem við Íslendingar njótum af t.d. tollalækkunum og að vega það á móti öðrum ákvæðum sem okkur eru síður eða miður hagstæð, geta menn svo endalaust rætt og reiknað og hefur reyndar verið gert. Hæstv. utanrrh. hefur m.a. orðið frægur að endemum í sambandi við talnameðferð sína á því sviði. Það er sá þáttur málsins sem mér finnst fullkomlega eðlilegt að menn séu ósammála um og leggi mismunandi mat á og auðvitað er það þannig að einungis reynslan getur svarað því að hve miklu leyti þessar breytingar verða okkur til hagsbóta og að hve miklu leyti þær verða okkur óhagstæðar. Hvort verða þær hagsbætur, sem allir viðurkenna að í vissum mæli eru að því fyrir sjávarútveginn að fá þennan samning, þ.e. tollalækkunarhlið hans, meiri eða minni, hvort vega þær þyngra eða léttara en fórnarkostnaðurinn sem við stöndum frammi fyrir og munum þurfa að taka á okkur á sviði landbúnaðar, iðnaðar og í ýmiss konar þjónustustarfsemi? Og hvernig á svo að meta inn í það samhengi þá hluti sem ekki verða metnir til fjár eins og fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar, forræði okkar yfir ýmsum málum sem takmarkast með þessum samningi?
    Hæstv. forseti. Eftir vandlega skoðun á þessu máli um mitt sl. ár komst ég að þeirri niðurstöðu eins og aðrir í mínum þingflokki að þessi samningur væri okkur Íslendingum ekki nógu hagstæður. Hann væri ekki rétta fyrirkomulagið á framtíðarsamskiptum okkar við Evrópubandalagið og því væri rétt að hafna honum og leita eftir viðræðum um að ganga frá þeim málum með öðrum hætti.
    Nú hillir að vísu undir það að Alþingi viðurkenni það í reynd ef svo fer með afgreiðslu á ályktun um nauðsyn þess að taka upp tvíhliða viðræður um samskipti Íslands og Evrópubandalagsins sem er auðvitað nokkuð merkilegt að skuli koma hér fram a.m.k. í formi nál. jafnvel áður en endanlegri afgreiðslu EES-samningsins er lokið á þinginu og mörgum mánuðum áður en hann gengur í gildi. Það segir kannski meira en mörg orð um það að þessi passi hæstv. utanrrh. inn í 21. öldina er ekki með langan gildistíma í hugum margra, að það skuli þegar vera farið að tala um hvernig eigi að bjarga málum þegar hann er fallinn úr gildi, áður en hann er gefinn út eða gengur í gildi.
    Jafnsannfærður og ég var orðinn um mitt sl. ár, hæstv. forseti, hvað þetta snertir að þessum samningi bæri að hafna og leita annarra leiða til að tryggja góð samskipti okkar og nauðsynlega viðskiptahagsmuni gagnvart Evrópu, þá er ég það enn frekar í dag. Ég tel að öll þróun mála á síðari hluta sl. árs og það sem af er þessu hafi bætt í og þyngt röksemdir okkar sem höfum varað við þessum samningi og flutt þann málstað að leggjast beri gegn því að lögfesta hann, hvað þá þegar horft er til þess að ákvæði hans samrýmast ekki íslensku stjórnarskránni og þjóðinni hefur verið neitað um að láta í ljós sitt álit. Sá blettur á meðferð hæstv. núv. ríkisstjórnar á þessu máli mun verða lengi uppi.