Evrópskt efnahagssvæði

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 16:42:32 (7906)


     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Ég vek athygli hæstv. utanrrh. á því að ég talaði jafnan um samningagerðina og átti þá við viðauka og annað það sem þessu fylgdi. Mér er það vel ljóst að landbúnaðarþátturinn er ekki inni í EES-samningnum sjálfum heldur á formi tvíhliða samninga milli EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins.
    Það er fróðlegt að hæstv. utanrrh. staðfestir það að enn einu sinni hafi landbúnaðurinn verið látinn færa fórnarkostnaðinn í samningunum við Evrópubandalagið. Að þessu sinni hafi hæstv. landbrh. fallist á að flýta gildistöku ákvæðanna um viðskipti með tilteknar landbúnaðarvörur til þess að sleppa undan kröfum Evrópubandalagsins um hærri framlög í þróunarsjóð. Þá er þetta í annað ef ekki þriðja skipti sem landbúnaðarþátturinn --- sem í upphafi átti alls ekki að vera inni í þessum viðræðum, inni í þessari samningagerð, og það var fullyrt af öllum --- er látinn borga herkostnaðinn af einhverri niðurstöðu. (Gripið fram í.) Hæstv. utanrrh. veit nú betur en svo að fullyrða að hér sé ekki á ferðinni hlutur sem menn hafi áhyggjur af fyrir hönd íslensks landbúnaðar. Hæstv. utanrrh. á að vita betur. Ég held að allir séu sammála um það að fátt valdi mönnum meiri ugg nú um stundir en til að mynda hver útkoma og afdrif garðyrkjunnar verða í framhaldi af þeim breytingum sem verið er að gera á innflutningsmálum. Ég tel að það sé mikilsvert að það liggi fyrir yfirlýst af hálfu hæstv. utanrrh. að þarna hafi landbúnaðurinn enn verið látinn borga herkostnaðinn, fórnarkostnaðinn, hagsmunir hans seldir fyrir ímyndaða ávinninga hæstv. utanrrh. á öðrum sviðum.
    Ég spurði svo hæstv. utanrrh. sérstaklega eftir því hvort rétt væri að hann hefði fallist á að láta þetta ganga í gildi 15. apríl sl. án samráðs við hæstv. landbrh. Sú saga gengur um bæinn, hæstv. utanrrh., að þetta hafi verið gert án samráðs við landbrh. Ég vænti þess að hæstv. utanrrh. geti svarað því hvort það sé rétt. ( Utanrrh.: Í fullu samráði við landbrn.) Í fullu samráði. Það er gott að heyra það.