Evrópskt efnahagssvæði

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 16:54:20 (7908)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hin efnislega umræða um þetta mál hefur farið fram. Það er ekki ástæða til að rifja hana upp. Skoðanir manna munu trúlega ekki taka breytingum hér í þingsalnum. En þau undur og stórmerki gerðust hér í atkvæðaskýringu að ungur og galvaskur þingmaður kom upp og flutti þingheimi boðskap utan af landsbyggðinni. Þetta var hv. 5. þm. Norðurl. v. Hann hafði verið á ferðalagi ásamt Þresti Ólafssyni en þeir félagar mynda í sameiningu tvö höfuð á sömu nefndina. Þegar hann hafði litið yfir farinn veg og rifjað upp minningarnar af fundunum þar sem þeir höfðu verið skammaðir botnlausum skömmum á flestum stöðum þá minntist hann þess að enginn hafði skammað hann fyrir EES. Af þessu dró hann þá ályktun að allir væru sammála EES. Mig langaði til að spyrja hann að því hvort EES-málið hafi verið á dagskrá á fundunum, hvort það hafi verið auglýst sem eitt af þeim málum sem þar bæri að ræða, því það hlýtur að vera þó nokkuð umhugsunarefni þegar fundur stendur e.t.v. til klukkan tvö um nóttina hvort

menn eigi að taka mál eins og EES upp og bæta því við þá umræðu sem fyrir er.
    Ég skil vel gleði hv. 5. þm. Norðurl. v. að hafa getað ferðast um landið og hafa sloppið við skammir í þessum efnum. Það er út af fyrir sig ekkert skrýtið þótt hann hafi verið glaður yfir því og ég vil að sjálfsögðu ekki verða til þess að taka frá honum þá gleði. En mig undrar það þó ekki sé meira sagt hvernig mönnum dettur í hug að koma með þá röksemdafærslu hér í ræðustólinn eins og hv. þm. gerði. Það er í sjálfu sér alveg furðulegt.
    Það er vitað að þjóðin skiptist í fylkingar í þessu máli. Það er vitað að það er mikill hiti í þessu máli vegna þess að Íslendingar hafa ekki fengið að tjá viðhorf sitt til málsins í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er vitað að það er álit margra þingmanna að þessi samningur brjóti stjórnarskrána og þess vegna sé ekki löglega staðið að samþykkt hans. Þetta eru þær staðreyndir sem blasa við. Núverandi meiri hluti í þinginu hefur ákveðið að láta atkvæði ganga á þann veg að samningurinn verði samþykktur án þess að það álitamál sé afgreitt hvort hann standist stjórnarskrána eða ekki. Ég verð að segja eins og er að miðað við það að meiri hluti er fyrir samþykktinni þá þykir mér betra að hitt álitamálið standi þá eftir því þá veit ég í hjarta mínu að samningurinn er ekki samþykktur á löglegan hátt. Hann er ekki samþykktur á löglegan hátt og þar af leiðandi lít ég svo á að hver einasti Íslendingur sé óbundinn af þeirri samþykkt sem hér stendur til að knýja í gegn. Það er vissulega góður hlutur að horfa á það þegar vitlaus samningur átti að binda hendur þjóðarinnar, að við búum þó við þann kost að þeir sem um eiga að véla eru ekki hæfari lögfræðingar en svo að þeir ganga frá málinu með ólöglegum hætti.
    En yfir Íslandi hvílir í dag vofa atvinnuleysis. Og það er kaldhæðni örlaganna að það skuli vera fulltrúi Alþfl. í bankaráði Seðlabanka Íslands sem kemur þeim boðskap á framfæri við þjóðina sem allir vita að er ein af afleiðingum þess að samningurinn verður samþykktur og það er að atvinnuleysi á Íslandi mun því miður taka þó nokkurt mið af atvinnuleysi í Evrópu á næstu árum. Ástæðan er einfaldlega sú að það er hægt að flytja hingað fólk ótakmarkað og auka þannig á atvinnuleysið ef atvinnurekendur líta svo á að það þurfi að nota atvinnuleysissvipuna til að aga verkafólk á Íslandi eins og virðist vera skilningur sumra. Mig grunar að hagfræðingurinn sem talaði á ársfundi Seðlabankans sé einn af þeim sem gælir við þá hugmynd að það sem hann kallar hóflegt atvinnuleysi sé það sem hann telur æskilegt. Einhvern tímann hefðu það þótt tíðindi að það væri fulltrúi Alþfl. sem boðaði slíkt. Og ég vil bæta því við að hér á árum áður var það ekki reglan að formaður bankaráðs Seðlabankans teldi að hann þyrfti að flytja einhverja tölu þegar ársreikningar bankans væru teknir fyrir. Nú hefur það aftur á móti gerst að fulltrúi Alþfl. telur sig eiga svo brýnt erindi við þjóðina að hann getur ekki setið á sér að koma þeim boðskap á framfæri til alþýðu manna að búast megi við hliðstæðu atvinnuleysi á Íslandi og er í Evrópu. Var það vegna þess að hann óttaðist að samningamenn ASÍ yrðu of harðir við samningaborðið, það væri rétt að veifa atvinnuleysisdulunni á þeirri stundu? Ég bið Alþfl. vel að njóta þeirrar ákvörðunar að hafa valið slíkan mann í bankaráðið til að koma sínum boðskap á framfæri.
    Ummæli hans gagnvart byggðastefnu og Byggðastofnun lifa einnig. Þau verða geymd en ekki gleymd. Það er mikill tvískinnungur í því þegar þeir sem betur mega sín, hafa náð góðum stöðum, trúlega og vissulega með tilkostnaði alls almennings í landinu því að skólavist á Íslandi var ókeypis þegar umræddur einstaklingur stundaði hér nám --- það er umhugsunarefni þegar slíkir menn ná þeirri aðstöðu að hafa völd og geta viðrað sínar skoðanir að þá hiki þeir ekki við að senda alþýðu manna kaldar kveðjur eins og gerðar voru. Það voru sendar kaldar kveðjur til launþega þessa lands með tilkynningunni um atvinnuleysið og það voru sendar kaldar kveðjur til byggðanna hringinn í kringum landið sem hafa haldið uppi íslensku efnahagslífi með sjósókn eins og allir í landinu vita sem til þekkja.
    Ég sé að svo hreint er taflið að það er ekki einn einasti alþýðuflokksmaður í salnum. Og nú skyldi enginn orð mín skilja á þann veg að ég sakni þess eða að ég telji nauðsyn að þeir séu í salnum. En það segir kannski sitt um samviskuna, að hún sé örlítið farin að kvelja þá. Ég tek einnig eftir því að þeir sem eru í salnum eru flestir andstæðingar þessa samnings og sumir hverjir á landamærunum með sína afstöðu. Einn þeirra sem hér eru í salnum hefur lýst því yfir á erlendri grund, ekki við alþýðu manna undir þeim kringumstæðum að það væri ætlast til þess að því væri sérstaklega hampað heldur undir öðrum kringumstæðum, að hann hefði enga trú á framtíð þessa bandalags. Ég ætla ekki að fara að hafa það yfir sem alþýða manna segir um það hvenær eigi að trúa Íslendingum en það er umhugsunarefni undir þessum kringumstæðum að það er viss kenning í gildi hvað það snertir. Kannski átti hún við undir þeim kringumstæðum.