Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 17:11:22 (7910)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það eru nokkur dægur síðan umræðan hófst um þessa tillögu. Í þeim umræðum lagði hv. 4. þm. Austurl. margar spurningar fyrir hæstv. utanrrh. og hv. formann utanrmn. og ég tel að þær spurningar hafi verið gagnlegar og þær umræður sem af þeim leiddu.
    Ég er þeirrar skoðunar að miðað við ríkjandi aðstæður sé skynsamlegt að samþykkja þá tillögu sem hér liggur fyrir. Fyrir því hef ég þau rök fyrst og fremst að það er mikilvægt hvað liggur fyrir frá Íslandi á borðunum í Brussel við þær aðstæður sem nú eru uppi í þróun þessara svokölluðu Evrópumála. Ég tel að það sé mikilvægt að þar sé ekki aðildarbeiðni. Út af fyrir sig er það rétt sem hv. 4. þm. Austurl. hefur sagt, það hefur ekki verið tekin ákvörðun um að sækja ekki um aðild, það er rétt, en það liggur ekki fyrir aðildarbeiðni. Það er í öðru lagi ekki autt borð og í þriðja lagi mun liggja fyrir þessi yfirlýsing um vilja Alþingis Íslendinga um tvíhliða samninga við Evrópubandalagið við þær aðstæður sem kynnu að skapast og það er mikilvægt að fram hefur komið að yfirlýsing um þessa afgreiðslu yrði send tafarlaust ef Alþingi samþykkir þessa tillögu.
    Ég tel, virðulegi forseti, að þetta sé reyndar ekki síst mikilvægt vegna þess að Alþingi hefur samþykkt aðild Íslands að Vestur-Evrópubandalaginu, hernaðararmi Evrópubandalagsins. Ef það eitt lægi eftir þetta þing að það hefði samþykkt aðild að EES og aðild að hernaðararmi Evrópubandalagsins þá er það auðvitað alveg augljóst mál að staða okkar væri mikilli óvissu undirorpin og þess vegna tel ég það skynsamlegt að fallast á tillögu af því tagi sem hér er flutt af utanrmn. Ég tel að í henni felist út af fyrir sig ekki nein pólitísk straumhvörf og ég tel heldur ekki að það sé nægilegt að mæla fyrir tillögunni með þeim rökum sem hv. formaður utanrmn. gerði, að tillagan sé einkar hagstæð fyrir stjórnmálaástandið á Íslandi. Ég tel að málið liggi einfaldlega þannig að hinn praktíski veruleiki í umheiminum sé með þeim hætti, eins og ég hef hér rakið, að það liggi ekki fyrir aðildarbeiðni, það sé ekki autt borð heldur liggi þessi yfirlýsing fyrir m.a. af því að Alþingi hefur samþykkt að Ísland verði aukaaðili að hernaðararmi Evrópubandalagsins.