Evrópskt efnahagssvæði

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 17:22:41 (7913)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Nú er komið að lokaafgreiðslu samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði, þessa mikla og mikilvæga máls sem hér hefur verið til umræðu frá því í ágústmánuði. Það hefur fátt breyst á þessum mánuðum sem geti orðið til þess að breyta minni afstöðu til þessa samnings. Það leikur enn sem fyrr vafi á því að samningurinn standist íslensku stjórnarskrána, vinnubrögð ríkisstjórnarinnar hafa verið og eru ámælisverð í þessu máli, landbúnaðarþáttur samningsins er enn ófrágenginn og það ríkir fullkomin óvissa um það hvort þessi samningur verður nokkurn tímann að veruleika. Með samþykkt þessa samnings

erum við Íslendingar að afsala okkur valdi til stofnana hins Evrópska efnahagssvæðis og þar með erum við að minnka möguleika okkar til að móta okkar framtíðarstefnu á okkar eigin forsendum. Ég segi nei.