Evrópskt efnahagssvæði

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 17:30:15 (7918)

     Vilhjálmur Egilsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef þá trú að þegar fram líða stundir muni þessa samnings verða minnst fyrir það að að honum var unnið í tíð tveggja ríkisstjórna. Að honum komu fjórir af þeim stjórnmálaflokkum sem nú sitja á Alþingi þótt einn þeirra óskiptur og annar að hluta til hafi kosið að halda ekki þeirri vinnu áfram við lokaafgreiðslu málsins. Ég tel að þetta sé mikilvægasti samningur sem við Íslendingar höfum gert um réttindi okkar atvinnulífs á erlendri grund. Ég tel að í honum felist stórkostleg framfaramál og hagsmunamál sjávarútvegsins. Ég tel að það sé sérstaklega þýðingarmikið að okkar atvinnulíf taki upp þær sameiginlegu leikreglur í viðskiptum sem gilda á hinu Evrópska efnahagssvæði. Ég tel að það sé afar mikilvægt að fá eftirlitsstofnun og dómstól til þess að skera úr um deilumál. Ég tel að það þjóni sérstaklega hagsmunum hinna smærri þjóða í deilum við hinar stærri. Ég tel því að þessi samningur á allan hátt styrki sjálfstæði íslensku þjóðarinnar og segi já.