Evrópskt efnahagssvæði

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 17:33:20 (7920)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Máli þessu er ekki lokið, öðru nær. Enn eiga átök eftir að verða og breytingar. Og líklega á Evrópskt efnahagssvæði eftir að liðast í sundur. Ég hef lengi bent á að þessar sviptingar væru aðeins um drög eða slitrur að samkomulagi. Allt hefur það komið á daginn og svo er enn. Árum saman hef ég varað við óðagotsmönnum í Evrópumálum og bent á að við ættum að fara okkur hægt en undirbúa okkur vel. Það höfum við gert m.a. með störfum Evrópustefnunefndar og útgáfu merkrar bókar um Evrópumálin. Ekkert það hefur gerst sem knýr nú á um breytt vinnubrögð. Þvert á móti hafa hætturnar vaxið því að stjórnarskráin væri brotin ef frv. yrði samþykkt. Það væri markleysa. Ég segi nei.