Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 17:41:18 (7922)

     Kristín Einarsdóttir :

    Frú forseti. Því miður er það svo að í þessari tillögu felst ekki nein stefnumörkun Íslendinga gagnvart Evrópubandalaginu. Tillagan snýst ekki um það hvort Ísland sæki um aðild að EB eða ekki. Ef tillagan hefði falið í sér að Alþingi tæki af skarið um að Ísland sækti ekki um aðild að Evrópubandalaginu hefði ég verið fyrsta manneskja til að fagna því. Það er hins vegar verið að taka stórt skref inn í EB með því að samþykkja aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði. Það er það sem skiptir máli um þessar mundir. Með tillögunni er aðeins verið að segja að ef EES verður ekki að veruleika eða ef Ísland verður eitt eftir í EES, þá eigi að taka upp tvíhliða viðræður við EB. Það þarf varla ályktun sem þessa til að svo verði gert. Tillagan skiptir ákaflega litlu máli til eða frá og mun ég því ekki taka þátt í afgreiðslu málsins og sitja hjá.