Framhaldsskólar

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 17:54:27 (7928)

     Frsm. minni hluta menntmn. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 1052 flyt ég brtt. sem felur í sér fjórar meginbreytingar frá tillögu meiri hlutans. Tillaga meiri hlutans er orðuð þannig:
    ,,Menntamálaráðherra er heimilt að efna til tilraunastarfs í starfsnámi . . .  `` Þetta finnst mér óeðlilegt orðalag. Mér finnst óeðlilegt orðalag í lögum um skóla að segja að ráðherra ákveði eða hefji einhverja tiltekna starfsemi í skólunum. Þess vegna legg ég til að þetta sé orðað þannig: ,,Menntamálaráðherra er heimilt að ákveða að efnt skuli til tilraunastarfs í starfsnámi . . .  ``
    Í öðru lagi gerir tillaga meiri hlutans ráð fyrir því að hér sé um að ræða heimild sem unnt sé að hefja í starfsnámi án þess að það sé tiltekið að það sé í framhaldsskóla. Eins og kunnugt er hafa verið uppi hugmyndir um að taka verkþætti framhaldsskólanáms út úr framhaldsskólanum og að setja upp sérstaka verknámsskóla. Í því sambandi hafa menn talað um bílgreinaskóla og menn hafa líka talað um prentskóla og reyndar fleiri skóla. Ég tel að þetta sé háskalegt vegna þess að þetta geti leitt til þess að framhaldsskólarnir verði í framtíðinni bóknámsskólar eingöngu og að verknámið flytjist fyrst og fremst í sérhæfðar miðstöðvar verknáms sem verða í Reykjavík af því að á landsbyggðinni verður ekki kostur á að safna saman jafngóðum tækjum til þess að stunda verknám eins og menn munu eiga kost á t.d. í þeim bílgreinaskóla sem menn eru að tala um að stofna hér í Grafarvogi. Það sem eftir stendur þá fyrir verkmenntun á landsbyggðinni er bóklegt undirbúningsnám. Ég tel að að sé rangt að fara svona í hlutina og þess vegna undirstrika ég það í minni brtt. í öðru lagi að fari þessi tilraun fram þá verði hún unnin í framhaldsskóla.
    Í þriðja lagi geri ég ráð fyrir því í minni tillögu að þessi tilraun verði unnin í samvinnu við skólastjórnendur. Meiri hlutinn leggur til að tilraunin verði unnin í samráði við skólastjórnendur. Má út af fyrir sig segja að á því sé ekki verulegur munur. Á það get ég fallist. En ég tel þó að það sé nokkur munur á orðalagi í þessum efnum, sérstaklega með hliðsjón af því að orðið samráð hefur oft verið notað býsna sérkennilega, ekki síst af núverandi hæstv. ríkisstjórn.
    Í fjórða lagi gerir tillaga meiri hlutans ráð fyrir því að þessi tilraun verði takmörkuð við tvö ár. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt. Ég tel að ef á annað borð er farið af stað með tilraun af þessu tagi þá muni hún ekki sýna eðli sitt og tilgang, innihald og vaxtarmöguleika nema hún standi kannski eitthvað lengur. Og ég tel að ráðherrann og skólastjórnendurnir eigi þá að ráða því að þessi tilraun geti staðið eitthvað lengri tíma.
    Í fimmta lagi, sem er nú kannski meginmunurinn á okkar tillögum, þá geri ég ráð fyrir því að fella út úr tillögu meiri hlutans orðin ,,ef nauðsyn krefur`` en í upphaflegu frv. ríkisstjórnarinnar var þetta orðað þannig: ,,Menntamálaráðherra er heimilt að efna til tilraunastarfs í starfsnámi og víkja þá frá ákvæðum þessara laga ef nauðsyn krefur.`` Hver metur nauðsynina? Menntamálaráðherra. Hann getur með öðrum orðum vikið til hliðar framhaldsskólalögunum eins og þau leggja sig ef honum sýnist. Og þá mega menn ekki horfa á þessa hluti bara út frá núverandi menntamálaráðherra eða fyrrverandi eða kannski tilvonandi menntamálaráðherra, menn verða að horfa á þetta almennt og átta sig á því að auðvitað geta ráðherrar farið misjafnlega vel með vald sitt, fyrir því er nokkur reynsla eins og kunnugt er. Ég segi það alveg eins og er, ég get ómögulega fellt mig við orðalag í lagagrein þar sem ráðherra er heimilað að víkja frá lögunum ,,ef nauðsyn krefur``, eins og það er orðað hér. Þannig að burt séð frá efni málsins að öllu öðru leyti þá á ég afar erfitt með að fella mig við þessa grein.
    Ég ætla ekki hér á þessum tíma, virðulegur forseti, að fara að rekja aðstæður verknáms í landinu og hvernig þær hafa þróast. Það er alveg augljóst mál að færri hafa valið verknám heldur en æskilegt hefði verið. Ástæðurnar fyrir því eru margar. Ein ástæðan er auðvitað sú að iðnaði hefur hrakað mjög verulega á Íslandi á undanförnum árum, hrakað alveg gífurlega. Ef við skoðum t.d. markaðshlutdeild íslenskra iðngreina á 20 ára tímabili þá er þar um að ræða hrun á mörgum sviðum. Önnur ástæðan fyrir því að tiltölulega fáir hafa valið verknám er sú að fólk hefur fengið vinnu, mér liggur við að segja hvar sem var í þeirri þenslu og þeirri miklu eftirspurn eftir vinnuafli sem var á Íslandi og hefur verið allt frá stríðslokum þangað til alveg á síðustu missirum. En auk þess er það auðvitað þannig, virðulegi forseti, að jafnvel þó að þessir krakkar velji verknám þá er staðan orðin þannig núna að þau sem ljúka því fá ekki að taka sveinspróf vegna þess að ástandið er þannig í atvinnulífinu að þau fá ekki samning. Það eru tugir iðnnema núna sem hafa lokið verknámi og hafa búið sig undir allt og geta farið í sveinspróf þess vegna en þau fá það ekki af því að þau fá ekki námssamning af því að atvinnulífið er á hliðinni. Þannig að allar frómar óskir um að ætla að bæta þessa hluti hér úr þessum stól eru í raun gagnslitlar eða gagnslausar meðan atvinnulífið sjálft er jafnveikt og raun ber vitni og getur ekki tekið við því fólki sem það þarf að taka við ef við ætlum að þróast hér sem verkmenntaþjóð á einhvern hátt.
    Það er engin deila um það við mig eða nokkurn mann hér í þessum sal að mér er kunnugt um að það þurfi að þróa þetta verkmenntakerfi. Það er engin deila um það a.m.k. við mig að að sumu leyti sé það þunglamalegt. Ég þekki það dálítið af eigin reynslu að eiga við þetta kerfi og það er að mörgu leyti ekki skemmtileg reynsla, hún er afar þung. Allar þessar óteljandi fræðslunefndir og öll þau kerfi sem þessi mál verða að fara í gegnum út og suður eru með þeim hætti að ég skil það vel að hæstv. menntmrh. skuli flytja mál af þessu tagi hér inn í þingið, ég skil það mjög vel. Þá er ég að tala um anda málsins sem slíks. Ég tel hins vegar að búnaður þess sé ekki með ásættanlegum hætti og þess vegna hef ég flutt þessa brtt. sem birtist hér þingheimi á þskj. 1052.
    Ég ætla ekki í sjálfu sér að orðlengja þetta frekar hér, virðulegi forseti, á þessu stigi málsins. Ég vona auðvitað að mín tillaga verði samþykkt. Ég tel að hún komi hundrað prósent til móts við sjónarmið ráðherrans í þessu máli, hundrað prósent þannig að ég vona að meiri hlutinn taki það til athugunar að samþykkja bara þessa tillögu, það er langeinfaldast. Ég boða það hins vegar að fari svo mót vonum mínum að minni tillögu verði hafnað, þá mun ég við 3. umr. áskilja mér rétt til þess að flytja nýja brtt. við tillögu meiri hlutans um eitt atriði. Um það að niður falli orðin ,,ef nauðsyn krefur``. Ég kann ekki við svona

vinnubrögð í lagasetningu, þau eru ekki viðeigandi, hæstv. forseti.