Framhaldsskólar

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 18:11:18 (7934)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil í örfáum orðum gera grein fyrir því hvers vegna ég undirrita nál. meiri hlutans með fyrirvara. Ég er efnislega sammála því að það sé nauðsynlegt og eðlilegt og gott að efna til

tilraunastarfs í skólum. Spurningin er á hvaða formi það á að vera og hver á að eiga að því frumkvæði. Mér þykir í rauninni svolítið óeðlilegt að það orðalag sem hér er, þar sem menntmrh. er falið að standa fyrir þessu --- í sjálfu sér hef ég talið að skólunum væri fyllilega treystandi til þess, og eins get ég tekið undir að það er sérkennilegt orðalag í lagagrein að heimilt sé að víkja frá ákvæðum þessara laga ef nauðsyn krefur. En það er auðvitað inntak málsins sem fyrst og fremst skiptir máli. Það kom fram í meðförum nefndarinnar á málinu að mörgu er ábótavant í okkar iðnmenntun og ég vil rifja það upp sem ég nefndi við 1. umr. um þetta mál að hér er auðvitað verið að taka einn ákveðinn þátt út úr því sem snýr að iðnfræðslu í landinu. Við höfum verið rækilega minnt á það að mjög nauðsynlegt er að skoða iðnnámið allt í heild og ég hef nú orðið mjög sterkan grun um það að við séum á miklum villigötum í þeim málum þó ég ætli ekki að fara nánar út í það hér.
    Það er líka svolítið gagnrýni vert finnst mér að það er fyrst og fremst eitt ákveðið verkefni sem er kveikjan að þessu frv. en það er auðvitað full ástæða til þess að horfa yfir landið og skoða hvað verið er að gera í iðnnámi og vek ég þar sérstaklega athygli á þeirri þróun sem á sér stað á Austurlandi. Menn þurfa auðvitað að skoða aðra möguleika en þann sem hér liggur að baki sem er ákveðið tilraunaverkefni í prentiðnaði.
    Ég vil að lokum nefna það, virðulegi forseti, að það verður spennandi að sjá hvernig þessi tilraun tekst og ég treysti því að það verði auðvitað unnið í góðu samráði við iðnskóla landsins, enda er það einungis eðlilegt og sjálfsagt.