Endurskoðun á lögum um lífeyrissjóði

171. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 10:31:56 (7936)

     Fyrirspyrjandi (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að bera fram til hæstv. forsrh. eftirfarandi tvær fsp.:
    1. Fyrirhugar ríkisstjórnin að láta fara fram heildarendurskoðun á lögum og skipan lífeyrissjóða?
    2. Hyggst ríkisstjórnin beita sér fyrir sérstakri endurskoðun á lífeyrismálum æðstu embættismanna ríkisins, auk ráðherra og alþingismanna?
    Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, hinni svonefndu hvítbók segir á bls. 26: ,,Framkvæmd verða löngu tímabær áform um samræmingu og einföldun lífeyriskerfisins. Þannig verður lagður grunnur að sómasamlegum eftirlaunum allra landsmanna.`` Ef ég man rétt þá er það einnig staðfest í 11. gr. stjórnarsáttmálans að unnið skuli að jöfnun lífeyrisréttinda allra landsmanna. Það er því tímabært að spyrjast fyrir um það á Alþingi hvort þessi endurskoðun sé hafin og ef ekki hvernig að henni verði staðið.
    Það er sannarlega ástæða til að hæstv. ríkisstjórn taki þessi mál föstum tökum. Það er rétt að minna á að margar fyrri ríkisstjórnir hafa ætlað sér að takast á við þetta stóra verkefni en ekki gert það og ekki tekist. Hér hafa komið fram á Alþingi nokkrar tillögur og frv. til laga er miða í átt að þessari endurskoðun en það er mjög mikilvægt að það liggi fyrir hver stefnumörkun hæstv. ríkisstjórnar er gagnvart þessu kerfi og gagnvart þeirri vinnu sem nauðsynlegt er að fram fari. Þá vil ég sérstaklega vekja athygli á Þeim þætti málsins er snýr að endurskoðun lífeyrismála gagnvart embættismönnum ríkisins og þá fyrst og fremst hinum æðri embættismönnum ríkisins og ekki síst ráðherrum og alþingismönnum en það er löngu vitað að þessir hópar njóta sérstakra sérréttinda í lífeyrismálum. Ég lít svo á að með yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar við myndun hennar hafi m.a. verið átt við það þegar talað er um að samræma lífeyrisréttindi allra landsmanna.