Svör við skriflegum fyrirspurnum

171. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 10:42:04 (7939)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hér er gengið í það verk að svara munnlegum fyrirspurnum eins og vera ber og allt gott um það að segja. En samkvæmt þingsköpum er einnig heimilt að leggja fram skriflegar fyrirspurnir. Þær taka lítinn tíma frá þinginu og það vill svo til að það form er að mörgu leyti mjög hentugt. Ég er með fyrirspurn frá Pétri Bjarnasyni til samgrh., um leiðsögumannsstörf. Þessari fyrirspurn á að vera búið að svara. Tíminn er útrunninn. En það er þó ekki það alvarlegasta heldur að hún var einnig flutt í fyrra og þá varð tíminn útrunninn og henni ekki svarað. Þannig að ráðuneytið er búið að fá mjög ríflegan tíma til að hugsa sig um og vinna það verk.
    Þess vegna fer ég nú fram á það við forseta að gengið verði í það af fullri festu að krefjast svars við þessari fyrirspurn og að það svar liggi fyrir áður en þingi verður slitið. Því það er gjörsamlega ólíðandi að það geti yfir höfuð gerst að forseti þingsins samþykki skriflega fyrirspurn sem eðlilega fyrirspurn en svo svari ráðherrar ekki slíkri fyrirspurn.