Pappírsnotkun þjóðarinnar

171. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 11:12:00 (7956)


     Guðrún Helgadóttir :
    Virðulegi forseti. Ég get mjög vel tekið undir það að gera mætti meira af því hér á hinu háa Alþingi að nota endurunninn pappír, t.d. í þingskjöl og annað slíkt. Ég get hins vegar ekki tekið undir það að persónulega fái ég pappír sem ég ekki þarf að nota hér á hinu háa Alþingi. Ég reyni að lesa það sem að mér er borið og ég vildi ekki missa neitt af því. En það sem ég held að skipti máli í þessari umræðu er að um opinber skjöl og plögg af öllu tagi ber auðvitað að fara með gát vegna geymslugildis og það verður auðvitað að gera skýran greinarmun á pappír sem er notaður daglega og er síðan kastað burt eins og t.d. þingskjölum, því síðan eru þau jú prentuð í þingskjalahuta þingtíðinda, og skjala eins og er í ráðuneytum, bréfaskipti og annað slíkt sem að mínu viti verður auðvitað að gæta mjög vel að hafi geymslugildi og þoli tímans tönn. Ég held því að þarna þurfi að hafa skjalaverði og sérmenntað fólk í þeim efnum til þess að marka stefnu í þeim málum. (Forseti hringir.) Síðan er auðvitað til tækni, virðulegi forseti, ég skal ljúka máli mínu, þar sem hægt er að mynda skjöl og geyma þau þannig sem örmyndir en það er auðvitað dálítið annar hlutur en ég vil bara leggja á það áherslu að það er ekki alveg einfalt mál að nota eingöngu endurunninn pappír því að eftir því sem ég skil best hefur hann mjög takmarkað geymslugildi.