Vörugjaldskrá hafna

171. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 11:38:28 (7966)


     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. svörin. Hann vísaði þessu aftur til Hafnasambandsins, en ég verð að segja alveg eins og er að ef ég hef verið undrandi áður en ég spurði þá er ég nú alveg hissa eftir svörin hjá hv. 1. þm. Vesturl. vegna þess að hann sagði að það hefði farið fram faglegt mat á þessu. Ég sagði hér áðan í minni framsögu um þetta mál að ef verðmæti útflutnings væri á annan milljarð á frystri afurð, þá væru greiddar 700 þús. Ef aftur á móti um loðnumjöl er að ræða og útflutningsverðmætið er 450 millj., þá eru greiddar 5 millj. Þarna er nú um alveg merkilegt, faglegt mat að ræða að mínu mati. Ég held því að það hafi verið óvitar sem fjölluðu um þetta, ég verð að segja alveg eins og er.
    En vegna þess að hér er sífellt verið að tala um offjárfestingu í sjávarútvegi og menn halda hér langar ræður um það og er eflaust hægt að rökstyðja það, þá eru sífellt gerðar meiri kröfur til fiskimjölsverksmiðja varðandi mengunarvarnir. Við höfum heyrt það t.d. hvað Reykvíkingar kvarta undan vondri lykt hér og ég ætla að taka sem dæmi hvað kostar að gera verksmiðjur reyklausar að Vestmannaeyingar eru að gera eina af sínum verksmiðjum reyklausa og það kostar 250 millj. kr. Það verður því að ríkja einhver skilningur þarna á milli aðila, sem um þessi mál fjalla.