Íþróttir, æskulýðs- og tómstundastarfsemi

171. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 11:41:25 (7968)

     Fyrirspyrjandi (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegi forseti. 11. maí 1988 samþykkti Alþingi svohljóðandi þál. um íþróttir, æskulýðs- og tómstundastarfsemi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta kanna áhrif og mikilvægi íþrótta, æskulýðs- og tómstundastarfs. Leitað verði samstarfs við íþróttahreyfinguna um mótun íþróttastefnu til ársins 2000.``
    Upphaflega var þessi þáltill. flutt af þeim sem hér stendur og fleiri hv. alþm. Nú er hins vegar langt um liðið síðan þessi þál. var samþykkt. Hún hefur lengi verið í meðförum menntmrn. Niðurstöður af a.m.k. stefnumótuninni hafa enn ekki birst og því spyr ég hæstv. menntmrh.:
    ,,Hvað líður framkvæmd þingsályktunar um íþróttir, æskulýðs- og tómstundastarfsemi frá 11. maí 1988?``
    Það eru fáir orðnir í þessu samfélagi sem efast um gildi íþrótta. Mikill fjöldi kannana hefur verið gerður á undanförnum árum um mikilvægi íþróttanna og áhrif á ungmenni og allar þessar niðurstöður ber að sama brunni. Þau ungmenni sem stunda íþróttir neyta síður ávana- og fíkniefna heldur en þau ungmenni sem ekki stunda íþróttir og ég hef heyrt að nú sé nýlokið könnun á þessu sviði og hana einmitt ber að nákvæmlega sama brunni.
    Það er margt fleira, virðulegi forseti, sem hér mætti nefna sem jákvæð áhrif íþrótta í þessu samfélagi, en ég ætla að láta þetta nægja. En þetta staðfestir það að mínu viti að það er mikilvægt að sem allra fyrst verði framkvæmd sú þál. sem samþykkt var 11. maí 1988 og leitað verður samstarfs við íþróttahreyfinguna eins og þál. gerði ráð fyrir um þessa stefnumótun.