Íþróttir, æskulýðs- og tómstundastarfsemi

171. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 11:47:19 (7970)

     Fyrirspyrjandi (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin. Ég sé það af svari hæstv. ráðherra að unnið hefur verið að málinu. Það hefur hins vegar tekið lengri tíma en menn kannski hefðu búist við að það þyrfti að taka í upphafi. Eftir svari ráðherrans liggur fyrir þessi viðamikla rannsókn sem gert er ráð fyrir að fram hafi átt að fara í þál. Það verður fróðlegt að sjá niðurstöður hennar, en þá er sá þáttur eftir sem lýtur að stefnumótuninni fyrir íþróttahreyfinguna í landinu. Þegar sú stefnumótun fer fram hljóta, eins þál. gerir ráð fyrir, að verða þar til kallaðir aðilar eins og Ungmennafélag Íslands og Íþróttasamband Íslands sem eiga að sjá um að framfylgja þeirri stefnu sem mótuð er. En við slíka stefnumótun hlýtur að þurfa að taka tillit til tveggja meginþátta. Í fyrsta lagi þess hvert á að vera hlutverk og til hvers er ætlast af þeim fjöldahreyfingum eins og Íþróttasambandi Íslands og Ungmennafélagi Íslands sem hafa með höndum skipulag og framkvæmd þessarar starfsemi í landinu, en um leið þarf auðvitað að taka tillit til þess hvað, hvar og hvernig á að fjármagna starfsemi þessara hreyfinga og um leið allra íþróttafélaganna til þess að geta staðið undir þeim skyldum sem á þessi fjöldasamtök hljóta að verða lagðar þegar slík stefnumótun fer fram.