Íþróttir, æskulýðs- og tómstundastarfsemi

171. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 11:51:38 (7973)


     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér nú aðallega hljóðs út af þessum síðustu orðum hv. 14. þm. Reykv. en þetta er verulegt vandamál í þessu byggðarlagi, Reykjavík, hvernig fjármálum íþróttahreyfingarinnar er háttað og hvað það kostar gífurlega fjármuni að taka þátt í íþróttastarfi.
    Ég vil einnig þakka hv. 11. þm. Reykv. fyrir að hreyfa þessu máli og bendi á það sem kom fram í ræðu hæstv. ráðherra að að þessum málum var unnið rækilega í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar. En ég vil svo segja það að lokum að hæstv. menntmrh. er nokkur vandi á höndum í þessum málum. Fyrir fáeinum árum ákvað Alþingi með samhljóða atkvæðum að taka íþróttastarfsemina af ríkinu algjörlega og afhenda hana sveitarfélögum og það virtust menn gera með opnum augum --- eða hvað? Hver einasti þingmaður hér greiddi glaður atkvæði með þessari margumtöluðu verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, a.m.k. sýndist mér flestir gera það þó það ætti ekki við undirritaðan. Það verður auðvitað að taka þessi íþróttamál upp á ný. Ég held að það hafi ekki verið heillaspor að slíta þarna algjörlega í sundur samstarf ríkis og sveitarfélaga.