Íþróttir, æskulýðs- og tómstundastarfsemi

171. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 11:52:50 (7974)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram, m.a. hjá fyrirspyrjanda, að stefnumótunin sjálf er eftir og eins og ég sagði í mínu svari verður niðurstaða könnunarinnar og skýrslan sem unnin var af nefnd fyrrv. menntmrh. lögð þar til grundvallar. Mér þykir einsýnt að til þessa verks verði kallaðir til fulltrúar frá þessum fjöldasamtökum, Íþróttasambandi Íslands og Ungmennasambandi Íslands og því verði þá jafnframt svarað við þessa stefnumótun hvert hlutverk þessara hreyfinga er á þessu sviði öllu og þá einnig hvernig eigi að fjármagna þessa starfsemi.
    Hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir spurði hvort ég ætlaði að efla Íþróttasjóð ríkisins. Það er mál sem kemur að sjálfsögðu til meðferðar hér við afgreiðslu fjárlaga. Hv. þm. talaði hér fyrir tillögu fyrir skömmu um eflingu Íþróttasjóðs, en þetta verður að skoða í sérstöku samhengi við það sem hv. þm. Svavar Gestsson kom hér einmitt inn á í sinni ræðu, að sveitarfélögunum hefur verið falið þetta viðfangsefni og til þess fengu þau vissulega tekjustofna með hinum nýju verkaskiptalögum. Það má vel vera að þessi ákvörðun þarfnist endurskoðunar, um það ætla ég ekki að dæma. Ég var fylgjandi því að sveitarfélögin fengju aukin viðfangsefni og ég er það áfram og þar á meðal þetta. Ef þau hins vegar ekki standa sig í stykkinu, þá kallar það vafalaust á endurskoðun í þessu efni.