Skrifleg svör við fyrirspurnum

171. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 11:55:14 (7975)

     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Í þingskapalögum segir í 49. gr. um fyrirspurnir:
    ,,Ef óskað er skriflegs svars sendir ráðherra forseta það að jafnaði eigi síðar en tíu virkum dögum eftir að fyrirspurn var leyfð.``
    Á haustþingi 1991 lagði ég fram fyrirspurn til hæstv. fjmrh. um hlunnindatekjur af ríkisjörðum. Sú fyrirspurn lá allt það þing og fram á vor 1992. Ég lagði hana aftur fram í haust og er hún 68. mál þessa þings, lagt fram 2. sept. Svar við þeirri fsp. hefur ekki borist. Hins vegar hefur fjmrn. þó haft samband við mig til þess að láta mig vita að þetta sé gífurleg vinna og það sé verið að taka þessar upplýsingar saman. En fullkomið svar get ég því miður ekki heldur fengið fyrir þinglok núna ef miðað er við það að þing skuli fara hér heim eftir örfáa klukkutíma með öll þau stóru mál óafgreidd sem eru sjálfsagt mörg hver og öll stærri en fyrirspurnirnar mínar, þá erum við nú á leiðinni heim engu að síður. En ég hef þó verið látin vita að þetta væri mikil vinna og þeir gætu því miður ekki svarað.
    29. okt. lagði ég fram fsp. til menntmrh. um starfsemi Menningarsjóðs útvarpsstöðva. Það er 182. mál þingsins og síðan eru liðnir 189 dagar. Þessi fsp., sem ég hélt að væri tiltölulega auðvelt að svara, var í sex liðum. Í fyrsta lið var aðeins spurt um hlutverk Menningarsjóðs útvarpsstöðva. Í öðru lagi hverjar hefðu verið heildartekjur sjóðsins 1991, sem fyrir löngu síðan hlýtur að liggja fyrir í ársreikningum. Síðan var spurt um hverjir skipa stjórn og úthlutunarnefnd þessa sjóðs. Í fjórða lagi hverjir hlutu styrk úr sjóðnum 1991 og 1992, hversu háan og til hvaða verkefna. Allt eru þetta upplýsingar sem hljóta að liggja fyrir eftir ákvarðanatöku og fundi sjóðs eða úthlutunarnefnda. Í fimmta lagi hvernig hafi verið staðið að auglýsingum eftir styrkumsóknum almennt og á þessu ári sérstaklega, þ.e. 1991. Og að lokum var spurt hvernig háttað sé skilagreinum um þau verkefni sem veitt hefur verið til.
    Þetta er fsp. sem ég lagði hér inn 29. okt. Starfsfólk Alþingis hefur aftur og aftur haft samband við menntmrn. og ævinlega fengið þau svör að svarið við fsp. mundi berast á næstu dögum. Þetta hefur verið gert ítrekað frá áramótum. Hins vegar hefur svarið ekki borist enn mér vitanlega og ég vil því spyrja menntmrh.: Hvað líður þeim svörum sem ég átti að fá? Miðað við dagsetningar átti ég að fá þau í nóvemberbyrjun. Og eins spyr ég forseta þingsins: Hvert er eftirlit forsætisnefndar með því að skriflegum fyrirspurnum sé svarað? Er það tekið fyrir á fundum forsætisnefndar þegar farið er yfir stöðu mála hér í þinginu hvort staðið hefur verið við það sem ákveðið var í lögum um þingsköp?