Skrifleg svör við fyrirspurnum

171. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 12:00:09 (7978)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég verð nú að segja það að ég er mjög undrandi á þessari málsmeðferð hjá menntmrn., hvernig í ósköpunum stendur á því að menn draga það að svara svona einfaldri spurningu. Það getur verið afsökun fyrir drætti að mikið verk sé að taka svarið saman, en það getur ekki verið í þessu tilfelli. Það er hálfgerð yfirhylmingarlykt af svona málsmeðferð sem ég veit náttúrlega að hæstv. menntmrh. fellir sig ekki við og ég hlakka til að sjá þetta svar.
    Ef hér hefði verið samþykkt tillaga sem ég flutti ásamt nokkrum öðrum hv. alþm. um rannsóknarnefnd fyrir nokkrum dögum síðan, þá hefði sú rannsóknarnefnd getað samkvæmt umboði í stjórnarskrá sótt þessar upplýsingar til ráðuneytisins en sú tillaga var felld. Fjárln. hefur tekið málið upp á sína arma og ég bíð spenntur eftir niðurstöðu hennar og Ríkisendurskoðunar. Svona mál er eðlilegt að upplýsa, svona mál verður að upplýsa. E.t.v. hefur það einhver áhrif á þessa tregðu hverjir hafa veitt þessum sjóði forstöðu og hvernig fjármunum hans hefur verið varið. Ég held að það sé nauðsynlegt að þessar upplýsingar komi fram. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir það að reka á eftir svarinu.