Skrifleg svör við fyrirspurnum

171. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 12:10:02 (7983)

     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svör hans hér. Ég fæ vonandi svör við mínum spurningum inn á borð í dag. En ég vil líka ítreka það við hæstv. forseta að þegar við leggjum fram fyrirspurnir sem þessar og prentuð er út hér staða þingmála, sem við fáum alltaf af og til, þá sé það hlutverk forsætisnefndar að fylgjast með framgangi mála og þingmenn þurfi ekki sjálfir að kveðja sér hljóðs um þingsköp til þess að reka á eftir. Ég nefndi áðan fyrirspurn sem ég hafði beint til fjmrh. 1991 og lá allt það þing og ég legg fram hér í haust 2. sept. og liggur enn, að vísu með þeim útskýringum ráðuneytis að þetta sé mikil vinna. Það er þá náttúrlega líka orðin spurning hvort ekki á að ræða við þingmenn ef búið er að eyða heilum tveim vetrum í að vinna úr þessari fsp. minni um hlunnindatekjur af ríkisjörðum, hvort ekki er þá orðin ástæða til þess að ræða það við þingmann að hann falli frá málinu vegna þess að slíkt hlýtur að hafa í för með sér gífurlegan kostnað fyrir ríkið, vinnan fyrir ári og svo aftur í vetur.