Afgreiðsla mála í nefndum

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 13:16:13 (7988)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 2. þm. Austurl. fyrir að vekja athygli á því hvernig dæmi eru um að stjórnarliðar fari með þingmannamál. Ég vil vekja athygli á því að í 27. og 29. gr. þingskapalaga eru ákvæði um það hvernig mál skulu meðhöndluð í nefndum. Í félmn. gerðist það að tillaga um að afgreiða mál út fékkst ekki afgreidd, en þess í stað lýsti formaður nefndarinnar því yfir að mál væru ekki afgreidd úr nefnd nema með samþykki formanns. Þessu var ekki mótmælt af hálfu stjórnarliða í nefndinni og varð það niðurstaðan. Þar sem þetta er með nokkuð öðrum hætti en ég hef vanist í mínum störfum í félagsmálum vil ég spyrja hæstv. forseta að því hvort þetta sé rétt að formenn þingnefnda ákvarði einir og sér hvaða mál fara út úr nefnd og hvaða mál fara ekki út úr nefnd.
    Enn fremur vil ég bera aðra fyrirspurn fram til forseta. Hún er sú að á fundi félmn. í gærkvöld komu til fundar nefndarinnar stjórnarformaður húsnæðismálastjórnar og framkvæmdastjóri Húsnæðisstofnunar ríkisins vegna ummæla sem féllu af hálfu ráðherra í umræðu um stjfrv. um Húsnæðisstofnun ríkisins. Ég vil því spyrja hvort það sé ekki réttur skilningur hjá mér að nefndarmenn geti nú skilað frhnál. til 3. umr. eftir að þetta mál var rætt á fundi nefndarinnar í gær.