Afgreiðsla mála í nefndum

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 13:18:23 (7989)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það er nú nærtækast fyrst að votta þeim í félmn. samúð vegna þess skörungsskapar sem formaður beitir þar og kemur mér á óvart ef menn lúta slíku. En ég vildi vekja athygli á einu atriði alveg sérstaklega. Áður en máli er vísað til nefndar er greitt um það atkvæði hvort það eigi að vísa málinu til 2. umr. hér í þinginu. Sú atkvæðagreiðsla er um það að Alþingi Íslendinga hefur tekið ákvörðun um að málið verði rætt áfram. Nefndin sem slík getur setið uppi með það að minni hluti skili áliti og þar með er þá málið komið á dagskrá. Það að atkvæðagreiðsla um úrslit mála í þingnefndum sé bindandi fyrir þingið er mikill misskilningur, enda hefur forseti líka að sjálfsögðu eins og allir vita leyfi til að kalla mál úr nefndum. Ég held að það sé skynsamlegt til þess að menn tefji ekki vinnu hér að þetta mál komi úr nefndinni og það verði atkvæðagreiðsla hér um málið. Þá liggur það fyrir hvort meiri hluti er fyrir því eða ekki. Málið er þá fellt og þar með þarf ekki að standa í einhverri deilu um það hvort meiri hluti sé til staðar eða ekki. En að birta það í fréttum að úrslit máls, hvort það verði að veruleika eða ekki, ráðist orðið í atkvæðagreiðslu í þingnefndum er gersamlega út í hött.