Afgreiðsla mála í nefndum

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 13:36:20 (7995)

     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þessa þingskapaumræðu mjög en það hljóta hins vegar að teljast mikil tíðindi ef það hefur gerst í sjútvn. í gær að fellt hafi verið að taka Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins þar út. Um miðjan apríl svaraði hæstv. forsrh. fyrirspurn frá mér um það hvenær þessum bótum yrði útdeilt úr Hagræðingarsjóði. Í máli forsrh. kom fram að það yrði á næstu tveimur til þremur dögum. Í lok þeirrar umræðu óskaði hæstv. forsrh. sérstaklega eftir því að ég fylgdist með tímatalinu fyrir hann. Það hef ég gert síðan og nú er það svo að þessir tveir til þrír dagar eru liðnir. Hæstv. forsrh. tók það reyndar fram að þetta væri háð því að kjarasamningar næðust. Nú hafa kjarasamningar ekki náðst en loforð ríkisstjórnarinnar var það, að dómi forsrh., að þegar kjarasamningar næðust þá yrði aflaheimildum Hagræðingarsjóðs deilt út.
    Engar lagaheimildir eru fyrir því í dag að aflaheimildunum sé deilt út og ef ég skil hæstv. forseta rétt að menn séu að leita leiða til þess að ljúka þingstörfum sem allra fyrst og ekki eigi að taka Hagræðingarsjóðinn út úr nefnd og fá hann samþykktan hér í þinginu, þá getur hæstv. forsrh. ekki staðið við kjarasamninga náist þeir á næstu vikum eða mánuðum. Hins vegar getur það líka vel verið að það standi alls ekki til hjá hæstv. forsrh. að gera neina kjarasamninga. Ef svo er þá er það auðvitað ágætisleið fyrir

stjórnarliðið að skilja Hagræðingarsjóðinn eftir í þinginu og bera því síðan við, þegar á að ganga frá kjarasamningum, að það hafi því miður ekki tekist að ná Hagræðingarsjóðnum út úr þinginu og því sé ekki hægt að standa við þetta loforð.