Afgreiðsla mála í nefndum

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 13:53:19 (8002)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil nú þakka forseta fyrir svör hennar varðandi aðra fyrirspurn mína um frhnál. Það liggur því ljóst fyrir að við getum skilað frhnál. í stjfrv. um Húsnæðisstofnun ríkisins og ég mun beita mér fyrir því að það verði gert og vænti þess að eðlilegt svigrúm verði gefið af hálfu forseta til að útbúa það og leggja fram.
    Ég vil láta það koma fram vegna orða forseta hér áðan að auðvitað berum við fullt traust til þingflokksformanns okkar. Það sem truflar menn eru hins vegar yfirlýsingar þingflokksformanns Alþfl. og það er rétt að mínu viti að forseti ræði dálítið við hann ef forseti hefur hug á því að þingstörfum verði lokið hér fyrir helgi.

    Ég vil þakka hv. 5. þm. Vesturl. fyrir það að staðfesta það sem ég sagði að formaður félmn. hefði lýst því yfir að mál yrði ekki tekið út nema að hennar ákvörðun. Það liggur fyrir staðfest og geta svo sem fleiri nefndarmenn vottað það. Ég vil benda á það og ítreka varðandi það umrædda þingmál að fyrir liggur í því tillaga frá mér um afgreiðslu málsins sem enn hefur ekki verið borin upp, sem formaður hefur neitað að bera upp jafnvel þótt umræður í nefndinni hafi leitt það í ljós að það er mitt mat að það sé meiri hluti fyrir málinu og enginn hafi lýst andstöðu við málið.
    Nú háttar svo til, virðulegi forseti, að það mun standa fyrir dyrum síðar í dag fundur í félmn. og er mér nú nokkur nauðsyn á að forseti gefi svar við fyrri fyrirspurn minni hvort það dugi sem ákvörðun um framgang mála að nefndarformaður ákvarði hvort mál fara út eða ekki. Ef forseti úrskurðar að nefndarformaður hafi ekki það vald, þá er hnekkt úrskurði nefndarformanns og málið í nefndinni liggur þá þannig að þar stendur fram tillaga um afgreiðslu málsins og ég vænti þess þá að hún verði þar borin upp á fundinum síðar í dag.