Afgreiðsla mála í nefndum

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 14:03:20 (8007)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs vegna þess að hv. 5. þm. Reykv. nefndi mál sem snýst um afrekssjóð fyrir íþróttamenn og var flutt hér á síðasta þingi og átti fleiri aðstandendur en nokkurt annað þingmál, þ.e. 25 flm., lá í menntmn. samt í allan fyrravetur og var síðan endurflutt sl. haust. Fljótlega eftir að ég kom í menntmn. í haust var þetta mál rætt. Þá man ég eftir því að hv. 3. þm. Reykv. reyndi að setja á langar ræður um það að það væri nú ekki mjög heppilegt fyrir íþróttahreyfinguna í landinu að samþykkja þetta mál og betra væri að þetta væri á fjárlögum og annað eftir því og flutti ýmsar faglegar röksemdir sem ég svaraði þá á nefndarfundi, leyfi ég mér að segja frá hér, forseti, með þeim hætti að andstaða þingmannsins væri fyrst og fremst vegna þess að 1. flm. væri hv. þm. Ingi Björn Albertsson. En það er eins og það sé veifað rauðri dulu framan í suma þingmenn Sjálfstfl. þegar það nafn er nefnt. Hv. 3. þm. Reykv. vildi ekki kannast við þetta og upp úr þessari þrætu var málið lagt til hliðar um skeið. Síðan óskaði ég eftir því á fundi menntmn. núna í fyrradag að þetta mál yrði samþykkt þar sem ég er einn af flm. þess. Þá lýsti formaður nefndarinnar því yfir að meiri hlutinn væri ekki tilbúinn til þess að afgreiða málið. Þannig fór málið út og af þeim ástæðum óskaði ég ekki eftir atkvæðagreiðslu um málið. Á fundinum þegar þetta gerðist voru allir menntamálanefndarmenn nema einn að ég hygg. Þannig var lending í þessu máli á þessu þingi.
    Ég vona auðvitað að hv. þm. haldi áfram og flytji frv. á næsta þingi og þá vona ég líka hans vegna og okkar allra flm. að það fækki ekki flm. eins og gerðist af einhverjum dularfullum ástæðum á milli þessa þings og þess síðasta.