Afgreiðsla mála í nefndum

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 14:14:21 (8013)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég tók eftir því að hæstv. forseti orðaði það svo áðan að mál væru ekki tekin á dagskrá öðruvísi en þau hefðu hlotið fullnaðarmeðferð í nefndum og nefndarálitum hefði verið skilað. Með hliðsjón af því vil ég gera athugasemd við 14. mál á dagskrá. Þar liggur aðeins fyrir álit frá 1. minni hluta nefndarinnar. Málið var tekið á dagskrá hér í gær án þess að nál. lægju fyrir nema frá 1. minni hluta. ( Forseti: Ef forseti mætti leyfa sér að grípa fram í, þá er forseta kunnugt um það að það er ekki komið nál. frá minni hluta nefndarinnar og frsm. minni hlutans hefur gert forseta grein fyrir því og málið verður ekki tekið til umræðu á meðan slíkt nál. liggur ekki fyrir, ef það mætti skýra málið strax.) Það skýrir hluta málsins, hæstv. forseti. Það sem ég var að gera athugasemd við var það að málið var tekið á prentaða dagskrá áður en nefndarálit lágu fyrir. Þannig stóð á að einungis var um að ræða álit frá 1. minni hluta menntmn.
    Varðandi það að kalla sama aukafund í menntmn. sem kæmi væntanlega til greina, þá er okkur nokkur vand á höndum og ég vil spyrja hæstv. forseta hvernig ætti að standa að því þar sem bæði formaður og varaformaður menntmn. hafa fjarvistarleyfi í dag og sennilega á morgun líka. Spurning er þá, hver ætti að kalla fund saman, við hvern ætti að tala til þess að fá fund í hv. menntmn.