Skaðabótalög

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 14:16:56 (8015)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Hér er eitt af þeim stóru málum sem hafa verið til umfjöllunar hjá Alþingi í vetur og ég neita því ekki að mér þykir sem menn hafi kannski ekki gefið sér þann tíma sem þurfti til að ræða þetta mál til sæmilegrar hlítar. Þannig atvikaðist að málið var afgreitt frá nefnd á aukafundi sem ég gat ekki sótt og fyrir lá að ég mundi ekki geta sótt. Því kemur það fram í nál. að ég muni hafa verið fjarstaddur.
    Afstaða mín í meginatriðum til þessa máls er að ég er fylgjandi þeim meginbreytingum sem er verið að fikra sig áfram til. Ég hef hins vegar nokkrar athugasemdir við efni í frv. og hefði talið heppilegt að menn hefðu gefið sér tíma til að reyna að sníða af því þá agnúa sem eru einkum þrír að mínu viti. Í fyrsta lagi vantar endurskoðunarákvæði í frv. Í öðru lagi er með þessu verið að binda bótaréttinn á grundvelli þess launamisréttis kynjanna sem viðgengst. Ég er ekki sáttur við það að menn setji löggjöf sem má segja að byggist á þessu misrétti, hugsanlega stuðli að því að festa það í sessi. Þvert á móti hef ég viljað að löggjöfin hefði einmitt unnið gegn þessu misrétti sem fyrir hendi er. Og í þriðja lagi sem að mínu viti er nokkuð stórt mál er að það vantar ákvæði um það í frv. hvernig bætur skulu skila sér til tjónþola en það er eftir því sem ég veit best, og er þó ekki sérfróður um það, eitt af stóru vandamálunum fyrir fólk sem lendir í málum af þessu tagi hversu seint og erfiðlega gengur að fá bætur innheimtar. Ég tel því að það væri mikil þörf á því að bæta úr hvað þetta atriði varðar.
    Að öðru leyti, virðulegi forseti, tel ég ekki ástæðu að sinni að hafa frekari orð um þetta frv. Það er mögulegt að koma að frekari atriðum við 3. umr. málsins ef þurfa þykir.