Útvarpslög

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 14:51:38 (8024)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 5. þm. Norðurl. e. fyrir þau orð sem hann lét falla og snerta a- og b-lið fyrri brtt. minnar. Mér sýnist að eftir atvikum séu þau fullnægjandi sem yfirlýsing frá honum. Ég geri ráð fyrir því að hann hafi hæstv. menntmrh. á bak við sig í þeim textum sem hann las hér upp og auk þess sem hv. þm. er formaður þeirrar nefndar sem er að endurskoða lögin þannig að ég tel að það sé skynsamlegra fyrir mig sem flm. og miðað við þá afstöðu sem ég hef til málsins að draga tillögurnar til baka en láta fella þær. Ég vildi ógjarnan að Alþingi lýsti þeim vilja sínum að fella þessar tillögur og þess vegna hef ég ákveðið að draga þessar tvær tillögur til baka.
    Ég vil aðeins fara nokkrum orðum um þær frekar og sérstaklega a-liðinn og víkja þá kannski í leiðinni að frv. og 4. gr. þess. Þarna er lagt til að festa þýðingarskylduna í lög og svo breytt væri þessi grein betri en gildandi lög. Það er óhætt að viðurkenna það núna þó að það hefði ekki verið óhætt kannski fyrir tveimur árum eða þremur að þýðingarskyldan er tæp miðað við gildandi lög. Reglugerðin eins og hún var skrifuð í menntmrn. á sínum tíma ég hygg af Sverri Hermannssyni var í það tæpasta miðað við orðalag laganna eins og það er í dag. Og það var mér ljóst þann tíma sem ég vann þarna í ráðuneytinu og ég tel þess vegna að hér sé um ágæta lendingu í orðalagi að ræða að því er þýðingarskylduna varðar almennt.
    Ég tel einnig að miðað við hið tæknilega umhverfi sem þjóðin býr við í útvarpsmálum, þá séu hlutirnir alveg sæmilega leystir í orðalagi þessarar greinar þó að auðvitað mætti hugsa sér að koma aðeins öðruvísi að því. Í 2. mgr. 3. málsl. er kveðið svo að orði, með leyfi forseta: ,,Við þær aðstæður`` þ.e. þegar um er að ræða viðstöðulausa dreifingu um gervitungl o.s.frv., ,,skal sjónvarpsstöð, eftir því sem kostur er, láta fylgja endursögn eða kynningu á íslensku á þeim atburðum sem gerst hafa.``
    Og ég flyt sem sagt þarna tillögu, hæstv. forseti, um að niður falli orðin ,,eftir því sem kostur er``. Ástæðan til þess að ég flutti tillöguna og flyt er fyrst og fremst sú að ég óttast áður en frsm. nefndarinnar talaði hér áðan að þessi orð yrðu skilin þannig að í rauninni væri stöðvunum það í sjálfsvald sett hvort þær létu fylgja endursögn eða kynningu á íslensku máli á þeim atburðum sem gerst hafa. Ég skil hins vegar yfirlýsingu hv. þm. þannig að í rauninni sé ekki spurningin um það hvort þetta eigi að gerast heldur hvernig það á að gerast og það er auðvitað algert úrslitaatriði í mínum huga. Ég lít svo á að orðanna hljóðan hér þýði það að þetta sé gert eftir því sem kostur er og þau orð lúti að því hvernig þetta er gert en alltaf eigi að tryggja það að Íslendingar geti skilið það sem þarna fer fram í sjónvarpi eða útvarpi eftir atvikum.
    Ástæðan til þess að ég er að nudda þetta, hæstv. forseti, er ekki síst umsögn um frv. frá Íslenska útvarpsfélaginu sem er alveg ferlegur texti, þar sem því er nánast lýst yfir af þessum einum valdamesta fjölmiðli landsins að það fyrirtæki sé staðráðið í því að hafa þessa grein að engu, því að hér segir t.d. um 4. gr., með leyfi forseta:
    ,,Um tölulið 3 a segir m.a. í 1. mgr. að íslenskar sjónvarpsstöðvar skuli kosta kapps um að meiri hluti útsendrar dagskrár sé íslenskt efni og dagskrárefni frá Evrópu. Ákvæðið endurspeglar fyrirmæli III. kafla sjónvarpstilskipunarinnar.
    Augljóslega er hér eingöngu um almenna leiðbeiningarreglu að ræða sem ber að túlka rúmt og ekki er verjandi að fylgja eftir með nokkurri hörku. Þá er ekki nokkur ástæða til að ganga lengra en ákvæði tilskipunarinnar mæla fyrir um . . .  `` o.s.frv. Og síðan segir hér um einmitt þessa setningu sem við vorum að tala um, með leyfi forseta:
    ,,Þá þyrfti að koma skýrt fram í framsöguræðu`` en Íslenska útvarpsfélagið ákvað að skrifa framsöguræðu fyrir menntmrn. og það er athyglisverð sjálfboðavinna sem þeir bjóða fram í þeirri stofnun, ,,þá þyrfti að koma skýrt fram í framsöguræðu með brtt. að hér sé um almenna leiðbeiningarreglu að ræða sem beri að skýra rúmt.`` Þannig að hér er aftur og aftur vegið í sama knérunn. Síðar segir hér t.d. um tilskipunina sem þarna er verið að tala um, það er sem sagt þannig á Íslandi nú orðið að það ber að taka tillit til tilskipananna. Það var gert hér til forna á meðan Danir réðu hér og nú er það komið aftur, að vísu ekki Daninn en aðrir. Það á að tala um tilskipanir og orðalag 4. gr. tilskipunarinnar ber þar af leiðandi þess merki að hér er um málamiðlun að ræða, segir hér með leyfi forseta og síðan: ,,Reyndar er orðalagið svo loðið að færa má að því rök að hér sé um hreinustu markleysu að ræða.`` Aftur og aftur kemur það fyrir í þessari umsögn Íslenska útvarpsfélagsins að þessari grein er vísað á bug. Og mér finnst það mjög mikilvægt að þessari umsögn Íslenska útvarpsfélagsins sé mótmælt héðan úr þessum virðulega ræðustóli Alþingis Íslendinga og að jafnskýr túlkun skuli hafa komið fram á þessari grein og fram kom í máli hv. 5. þm. Norðurl. e.
    Varðandi þriðju brtt. mína, tölul. 2, að allt tal og texti í auglýsingum skuli vera á íslensku, þá hefur mér ekki unnist tími til að kanna auglýsingalögin að því er þetta varðar. En það kann að vera að þau leysi þetta þannig að þau kveði á um þetta atriði, en ég man það ekki í svipinn og þess vegna flutti ég þessa tillögu. Ef það er svo að auglýsingalögin segi þetta fullum fetum eða svo að segja, hæstv. forseti, þá er þessi tillaga óþörf. Og ég sé hér að í 22. gr. samkeppnislaga sem samþykkt hafa verið, það segir í 1. mgr.:
    ,,Auglýsingar, sem höfða eiga til íslenskra neytenda, skulu vera á íslenskri tungu`` og það ætti auðvitað að duga.
    Það er auðvitað álitamál hvort þetta á að vera í útvarpslögunum líka af því að þar erum við að tala um auglýsingar hvort eð er, en það læt ég mönnum eftir og er tilbúinn til að skoða það milli 2. og 3. umr.
    Þegar svo er komið að lítið er eftir af brtt., að ég hef dregið tvær til baka og frestað einni, þá geta menn svo sem ímyndað sér að í sjálfu sér er allgott samkomulag um þetta frv. Við 1. umr. málsins gerði ég nokkrar athugasemdir við það, t.d. við 5. gr. og ég skemmti mér við það smástund hér í ræðustól að tala um það hvað það þýddi að hafa áhrif á fólk neðan marka meðvitaðrar skynjunar. Varð um það nokkur kveðskapur hjá útvarpsráðsmanni sem sat þá hér á Alþingi um meðvitaða skynjun og mörk hennar og hvað væri neðan markanna og hvað væri ofan marka meðvitaðrar skynjunar. Ég ætla ekki að rifja það upp núna en það sem hér er átt við eru efni, myndir, sem er skotið inn í auglýsingar eða annað efni til þess að hafa áhrif á viðbrögð fólks, tilfinningaleg viðbrögð fólks, án þess að það í raun og veru geri sér grein

fyrir því. Ég held að eftir atvikum sé þetta brúklegt orðalag, a.m.k. hafa ekki heyrst tillögur um neitt skárra í meðferð nefndarinnar á þessu máli en það var ágætlega farið yfir málið í nefndinni.
    Eitt af þeim efnum sem mikið var rætt í nefndinni voru kostunarákvæðin sem eru í 6. gr. frv. og þau eru eftir atvikum brúkleg að mínu mati. Í raun og veru skýra þau og setja lagaramma utan um það sem tíðkast hefur og ætla má að tíðkist hér í þessum efnum þannig að ég held að þarna séu menn að setja hóflegar lagaskorður og eðlilegar í þessu sambandi.
    Ég ætla þessu næst aðeins að víkja að málinu almennt. Ég vil með hliðsjón af því hvernig tíma Alþingis er háttað ekki taka allt of langan tíma en ég ætla að nefna tvö önnur atriði. Það fyrsta lýtur þá að undirbúningi málsins. Frv. þetta er samið af nefnd sem menntmrh. skipaði 29. apríl árið 1992. Í henni voru eingöngu fulltrúar stjórnarflokkanna og tveggja eða þriggja útvarpsstöðva, m.a. sýnist mér t.d. enginn starfsmaður Ríkisútvarpsins. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst það nokkuð sérkennilega að hlutum staðið að skipa nefnd með þessum hætti, að hafa þar engan fulltrúa frá stjórnarandstöðunni eða úr starfandi forustuliði Ríkisútvarpsins. Þegar ráðherra skipar nefndir eru í grófum dráttum uppi þrír möguleikar að mínu mati. Einn möguleikinn er sá að um sé að ræða pólitíska nefnd sem er skipuð fulltrúum stjórnar og stjórnarandstöðu. Annar möguleikinn er sá að um sé að ræða hreina tæknilega nefnd þar sem t.d. útvarpsstjóri, forstjóri Íslenska útvarpsfélagsins, póst- og símamálastjóri og slíkir aðilar eru. Þriðji möguleikinn er í grófum dráttum sá að vera með blöndu af þessu tvennu. Ég tel að það komi ekki til greina þegar um er að ræða úthlutun á almannaeign, eins og ljósvakinn er, að vera með nefnd sem sniðgengur í raun og veru stjórnarandstöðuna með þeim hætti sem hér er gert. Ég vil segja það hv. 5. þm. Norðurl. e. til viðurkenningar að ég tel að hann hafi staðið faglega að þessu máli að svo miklu leyti sem það sneri að menntmn., sömuleiðis í þeirri ræðu sem hann flutti hér áðan. Ég treysti honum ágætlega til þess, miðað við allar aðstæður, að stýra þessari nefnd. En ég teldi að með hliðsjón af því að þetta frv. verði að lögum þá verða ákveðin kaflaskipti í starfi nefndarinnar, þá ætti að endurskipa hana og kalla inn í nefndina einhverja fulltrúa frá stjórnarandstöðuflokkunum þannig að áður en málið kemur hér inn í lokagerð verði búið að vinna að pólitísku samkomulagi um það.
    Ég vil sem sagt nota þetta tækifæri til þess að spyrja hæstv. menntmrh. hvort hann er sammála því að það sé eðlilegt að endurskipuleggja þessa nefnd með hliðsjón af því að ákveðin skil eru í starfi hennar núna, ef þetta frv. verður að lögum. Þetta leiðir mig svo til hins síðari almenna þáttar í málinu sem ég ætla að nefna áður en ég fer úr þessum ræðustól og það snertir starfsemi Ríkisútvarpsins. Um þá starfsemi hafa orðið nokkuð hvassar deilur í seinni tíð. Ég ætla í sjálfu sér ekki að fara að rifja þær upp núna en ég segi alveg eins og er að ég hef áhyggjur af Ríkisútvarpinu eins og sakir standa. Ég óttast að það ríki ekki og geti ekki ríkt í stofnuninni eða í kringum hana sá friður og sú eindrægni sem þarf að ríkja af því að þetta er stofnun þjóðarinnar. Mín skoðun er sú að menntmrh. eigi helst aldrei að hlutast til um innri mál Ríkisútvarpsins, helst aldrei, nema í samráði við Ríkisúvarpið. Mín skoðun er sú að menntmrh. eigi aldrei að beita Ríkisútvarpið valdi eins og dæmi eru til um.
    Ég tel að sú umræða sem verið hefur um Ríkisútvarpið og einkum sjónvarpshlið þess að undanförnu sé afskaplega alvarlegt umhugsunarefni. Ég heyri t.d. að valdamiklir talsmenn og trúnaðarmenn menntmrh. í þessum málum eru að tala t.d. um það að kljúfa Ríkisútvarpið. Það er verið að tala um að kljúfa það í tvennt. Það er verið að tala um það að til verði ein stofnun sem heiti Ríkisútvarpið/sjónvarp og önnur stofnun sem heiti Ríkisútvarpið/hljóðvarp. Komið hafa fram mjög sverar yfirlýsingar í þessum efnum frá ýmsum aðilum og alveg sérstaklega frá Hrafni Gunnlaugssyni sem nú gegnir á vegum menntmrh. sérstöku trúnaðarstarfi hjá sjónvarpinu og þetta kemur reyndar fram í greinargerð þeirri sem Pétur Guðfinnsson lagði eftir sig þegar hann lét af störfum hjá sjónvarpinu.
    Ég vil nota þetta tækifæri til að spyrja, virðulegur forseti: Eru uppi hugmyndir um þetta, að kljúfa starfsemi Ríkisútvarpsins með þessum hætti?
    Í öðru lagi vil ég spyrja: Eru enn þá uppi hugmyndir um það eins og ræddar voru í kringum landsfund Sjálfstfl. hygg ég að það hafi verið, vorið 1991, að selja Rás 2?
    Ég held að það skipti mjög miklu máli upp á framhaldið á þessari nefndarvinnu að fá upplýsingar um það hér frá hv. 5. þm. Norðurl. e. og hæstv. ráðherra hvort þessar hugmyndir eru enn uppi, að selja Rás 2 og veikja þannig mjög verulega stofnunina.
    Í þriðja lagi vil ég víkja að því að vegna þeirra deilna sem uppi hafa verið um Ríkisútvarpið að óhjákvæmilegt er að ræða sérstaklega um Menningarsjóð útvarpsstöðva. Þessi sjóður varð til, hygg ég, sem málamiðlun árið 1985 milli þáverandi stjórnarflokka, ef ég man rétt, Framsfl. og Sjálfstfl. Ég hygg að ég fari ekki rangt með ef ég segi að þeir framsóknarmenn hafi lagt talsvert mikla áherslu á þennan menningarsjóð, sérstaklega með hliðsjón af því að það væri nauðsynlegt að til væri slíkur sjóður til þess að standa undir kostnaðarsamri dagskrárgerð í því samkeppnisþjóðfélagi sem menn voru þá að stefna útvarpsstarfseminni út í. Ég man ekki betur en hv. þm. Ólafur Þórðarson hafi verið í menntmn. fyrir Framsfl. og hann hafi sett á allnokkrar ræður um það að þetta skipti talsverðu máli.
    Nú er því ekki að leyna að við höfum alla tíð verið í vissum vandræðum með þennan sjóð, alla tíð. Í fyrsta lagi höfum við verið í vandræðum með að ákveða hverjar eru raunverulegar tekjur sjóðsins og hvernig á að ákveða greiðsluskyldur sjóðsins. Hvernig á að ákveða það t.d. hvernig hann tekur þátt í rekstri útvarpsins eða Sinfóníuhljómsveitar Íslands? Og hvernig á svo að borga í sjóðinn? Við þekkjum það að

þessar svokölluðu frjálsu stöðvar --- mér leiðist það tal því það er eins og Ríkisútvarpið sé ófrjálst --- að þessar einkastöðvar fengust ekki langtímum saman til þess að borga í sjóðinn. Það þurfti að hóta þeim bæði innsiglum og fógetum áður en þær fengust til að borga, margar þeirra. Ég held að þær hafi drattast til þess að borga að lokum en það gekk afar illa og ég hef grun um að þetta sé svona enn þá, það sé erfitt að eiga við þetta lið.
    Á þessum tíma er það í raun og veru ákveðið, í minni tíð og í tíð Birgis Ísleifs Gunnarssonar og fleiri menntamálaráðherra, að sjóðurinn skuli ekki úthluta beint til sérstakra verkefna heldur skuli hann einfaldlega greiða stöðvunum aftur nokkurn veginn það sem þær borga í hann. Þetta kom sér náttúrlega verst fyrir Ríkisútvarpið því það borgaði alltaf. Því var bara haldið eftir, held ég, af hlut Ríkisútvarpsins niðri fjmrn. þannig að Ríkisútvarpið komst ekki upp með neinn moðreyk í þessu máli.
    Síðan ákveðum við það, ég hygg að það hafi verið árið 1990 eða 1991, að setja hluta af þessum sjóði til þess að styrkja innlenda dagskrárgerð utan stofnananna. Ég tek um þetta ákvörðun í minni tíð, mjög umdeilda ákvörðun vegna þess að ýmsir töldu að ég hefði enga heimild til að gera þetta. Ég var búinn að liggja dálítið yfir þessu og mér fannst skynsamlegt að stuðla að dagskrárgerð utan stofnananna og þannig má segja, að þessu leytinu til hafi fundist þráður á milli mín og framkvæmdastjóra sjónvarpsins sem finnst nú á fáum öðrum sviðum. Niðurstaða mín verður svo sú að ég breyti þessari reglugerð og hef starfandi sem formann þessa sjóðs Pál Skúlason prófessor, sem ég valdi fyrst og fremst vegna þess að hann var utan við þetta kraðak allt saman sjálfur. Síðan er skipaður þarna formaður sem er margnefndur Hrafn Gunnlaugsson sem er tengdur allri þessari dagskrárgerð, í stórum stíl, og sjóðurinn fer af stað með úthlutanir á þessum peningum sem orka mjög tvímælis að margra mati eins og svona úthlutanir gera kannski alltaf. Ég er ekki að segja að það sé hægt að komast hjá því, en mér fannst sérkennilegt þegar t.d. Hannes Hólmsteinn Gissurarson fékk sérstakan styrk hjá þessum sjóði til að gera dagskrá um hugmyndahvörf Íslendinga á 20. öld, af öllum mönnum. Síðan gerist það á dögunum að sjóðurinn styrkir þessa makalausu mynd Baldurs Hermannssonar með 8,9 millj. kr. Auk þess borgar sjónvarpið fyrir hana 3 millj. kr. en hafði áður í raun og veru borgað 6 millj. af þessum 8,9 millj. sem fóru í myndina í gegnum sjóðinn. Það er því mjög vandasamt að halda úthlutunum úr þessum sjóði. Með öðrum orðum, það sem ég segi er að það þarf að ríkja samkomulag um þennan sjóð. Ef hann á að vera til, þá þurfa menn að vanda sig þegar þeir eru að úthluta peningum úr honum og ganga þarf hægt um gleðinnar dyr og vera eins faglegir og kostur er. Þess hefur því miður ekki verið gætt og sjóðurinn er orðinn umdeildari en flestir aðrir sjóðir í landinu og er þá langt til jafnað.
    Þá er spurningin sú, eiga menn að gefast upp fyrir þessu og segja: Leggjum sjóðinn niður. Ég hef heyrt að ýmsir aðilar, mig minnir Stöð 2 og jafnvel fleiri, eru að tala um að það eigi bara að leggja þennan sjóð niður. Ég fyrir mitt leyti hef ekki verið tilbúinn að fallast á það, vegna þess að ég er það seinþreyttur til vandræða að ég vil ógjarnan fallast á það. Og ég tek undir með kvikmyndagerðarmönnum og dagskrárgerðarmönnum að ég held að þetta gæti auðgað dagskrárgerðarflóruna í íslenska þjóðfélaginu, auðgað dagskrárgerðina, að hafa slíkan sjóð en þá er vandi að vinna með hann, mér er það alveg ljóst. Þess vegna finnst mér ekkert óeðlilegt þó að menn segi núna: Það á bara að leggja þennan sjóð niður. Ég fyrir mitt leyti kann ekki að meta þá pólitík sem hrapar að niðurstöðum þó að mönnum mistakist í eitt eða tvö skipti, heldur eigi menn að reyna að skoða hlutina til hlítar og ég held að hugmyndin og hugsunin á bak við sjóðinn hafi verið skynsamleg.
    Ég vil í tilefni af þessu spyrja hæstv. menntrmh. þeirrar spurningar: Er hann með það í huga að leggja sjóðinn niður eða breyta starfsemi hans á einhvern hátt?
    Þá hef ég hér, virðulegi forseti, lagt fyrir hæstv. menntmrh. fjórar spurningar. Það er í fyrsta lagi varðandi nefndina og hugsanlega endurskipun hennar. Er hann tilbúinn að endurskipa hana, endurskipuleggja á þessum tímamótum?
    Í öðru lagi: Er hann með hugmyndir uppi um það að kljúfa sjónvarp og útvarp í tvær stofnanir eins og Hrafn Gunnlaugsson og fleiri áhrifamenn í stjórnarliðinu hafa verið með tal um?
    Í þriðja lagi: Er hann með hugmyndir um það að selja Rás 2 eins og Sjálfstfl. var með hugmyndir um á sínum tíma?
    Í fjórða lagi: Eru uppi hugmyndir um það að leggja niður Menningarsjóð útvarpsstöðva?
    Ég hygg að segja megi, virðulegi forseti, að Ríkisútvarpið eigi stuðningsmenn á Alþingi í hverjum einasta þingmanni liggur mér við að segja. Ég tek eftir því að þingmönnum gengur oft dálítið illa að átta sig á því að Ríkisútvarpið er ekki bara ríkisútvarp. Það er öryggistæki, það er menningartæki en það er líka í samkeppni við aðrar stöðvar. Mér finnst stundum að menn hafi gleymt því að við ákváðum eða meiri hluti Alþingis ákvað að hrinda Ríkisútvarpinu út í samkeppni. Þess vegna hafa oft komið fram sérkennilegar gagnrýnisraddir á Ríkisútvarpið hér á Alþingi m.a. í fyrirspurnatímum af því að Ríkisútvarpið hefur leyft sér að taka þátt í samkeppni um áhorfendur. Ríkisútvarpið verður að gera það af því að það þarf áhorfendur og auglýsingatekjur til að geta staðið sig í samkeppni við aðra og þannig koll af kolli. Ég held því að menn í þessari stofnun þurfi kannski að átta sig betur á þessari erfiðu stöðu Ríkisútvarpsins, að vera í senn ríkisstofnun og samkeppnisstofnun. Það gerir það að verkum að yfirstjórn hennar er flóknari og vandasamari en ella.
    Varðandi yfirstjórn Ríkisútvarpsins þá má auðvitað margt segja, virðulegi forseti, og ég hef nokkuð mótaðar skoðanir í þeim efnum, t.d. varðandi hlut útvarpsráðs. Ég hef mjög lengi verið þeirrar skoðunar að það eigi að leggja útvarpsráð niður. Ég sé ekki að það sé ástæða til þess að Alþingi sé að kjósa pólitíska fulltrúa sína til að hafa eftirlit með Ríkisútvarpinu. En ég hef lengst af verið nokkuð einn á báti með þá skoðun og komst ekki mikið áfram með hana í síðustu ríkisstjórn, aðallega vegna þess að ég vildi ná samkomulagi um hlutina. Ég held að menntmrh. eigi að temja sér það að umgangast Ríkisútvarpið og útvarpslögin rétt eins og hverja aðra auðlindalöggjöf sem við erum að fjalla um. Þessi auðlind er ljósvakinn. Í gær vorum við að tala um auðlindir í iðrum jarðar og virkjun fallvatna. Þar áður um fiskstofnana. Ég held að við eigum að líta þannig á að ljósvakinn sé almannaeign og þess vegna þurfi að kalla alla til, fulltrúa meginsjónarmiða, þegar verið er að semja útvarpslög um leið og ég ítreka þá afstöðu mína að eftir atvikum tel ég að menn hafi fundið alveg brúklega lendingu í þessu frv.