Útvarpslög

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 15:18:02 (8025)

     Frsm. menntmn. (Tómas Ingi Olrich) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort það er eðlilegt að nota réttinn til andsvars til þess að þakka hv. þm. Svavari Gestssyni fyrir jákvæð viðbrögð við framsöguræðu minni en ég geri það hér með.
    Ég vil aðeins koma hér upp til þess að taka það skýrt fram að ég ber fulla ábyrgð á orðalaginu ,,neðan marka meðvitaðrar skynjunar``. Í þessu felst að sjálfsögðu ákveðin forgangsröð skynjunarinnar. Það er verið að setja meðvitaða skynjun ofar ómeðvitari skynjun og er það ákveðinn hroki mannkynsins sem er fólginn í þessu og tengsl við þróunarkenninguna og 19. öld. Ég ber fulla ábyrgð á þessu en finnst ekki fara illa á því að við hv. þm. stöndum saman að þessum lítillega hroka sem kemur fram í frv.