Útvarpslög

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 15:19:01 (8026)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. menntmn. fyrir afgreiðslu á þessu frv. og ítarlega og ágæta vinnu sem nefndin hefur þar lagt af mörkum. Ég vil jafnframt lýsa því yfir að ég styð fyllilega þá túlkun sem framsögumaður nefndarinnar, hv. þm. Tómas Ingi Olrich, viðhafði á einstaka atriðum í frv.
    Ég þakka líka hv. þm. Svavari Gestssyni fyrir það hvernig hann hefur tekið á þessu máli. Ég skil orð hans svo að hann dragi til baka fyrri brtt. en sé reiðubúinn með nefndinni og þá væntanlega mér, sem ráðherra, að athuga milli umræðna aðra brtt. varðandi það að allt tal og texti í auglýsingum skuli vera á íslensku. Mér finnst sjálfsagt að við athugum það milli umræðna.
    Vegna fyrirspurna hv. þm. Svavars Gestssonar til mín vil ég segja þetta: Varðandi undirbúning málsins höfum við farið áður í gegnum alla þá umræðu, bæði skipun þessarar nefndar og fleiri nefnda sem ég hef skipað án þess að leita tilnefninga ýmissa hagsmunaaðila og ég ætla ekkert að fara að endurtaka það. Ég er alveg reiðubúinn að ræða það við formann nefndarinnar hvort þau tímamót sem nefndin standi á núna kalli á einhverja sérstaka umræðu um endurskipulagningu hennar. Ég hef gert ráð fyrir því að nefndin mundi halda áfram störfum og veit ekki betur en hún geri það, en ég mun ræða það við hann hvort honum þyki ástæða til. Ég er þess fullviss að nefndin hefur unnið mjög faglega í starfi sínu, kallað til mjög marga aðila og fengið skýrslur frá ýmsum þeim sem þarna er ástæða til að kalla til verka.
    Varðandi það hvort menntmrh. eigi yfirleitt að hlutast til um starfsemi Ríkisútvarpsins, þá er það mál út af fyrir sig sem ég er alveg tilbúinn að ræða en ég held að það væri betra að geyma það þangað til kemur að lokaskýrslu nefndarinnar og endanlegri endurskoðun á útvarpslögunum. Ég nefni í því sambandi að menn verða að muna það að útvarpslögin eru meira en lög um Ríkisútvarpið eitt. Á því varð sú meginbreyting þegar núgildandi útvarpslög voru sett að þar var öðrum en ríkinu heimilað að reka útvarpsstöðvar. Afskipti ráðherra nú af málefnum Ríkisútvarpsins markast auðvitað af þeim skyldum sem honum eru lagðar á herðar í gildandi lögum en að öðru leyti hefur ráðherra ekki nein sérstök afskipti af Ríkisútvarpinu, ekkert önnur en þau sem honum er beinlínis falið að hafa.
    Hv. þm. spurði hvort uppi væru hugmyndir um að kljúfa starfsemi Ríkisútvarpsins. Ég skildi það svo að hann væri að spyrja hvort það ætti þá að hafa tvær sjálfstæðar deildir eða jafnvel tvær sjálfstæðar stofnanir, annars vegar hljóðvarp og hins vegar sjónvarp. Ég veit ekki hvað nefndin er að ræða. Henni var ekki falið sérstaklega að svara þeirri spurningu og af minni hálfu eru ekki uppi neinar sérstakar hugmyndir um slíkt. Mér er hins vegar kunnugt um að slík hefur orðið raunin í öðrum löndum og þess vegna kannski ekkert óeðlilegt þótt slíkar spurningar vakni hér hjá okkur. En af minni hálfu eru sem sagt ekki uppi neinar sérstakar hugmyndir um það efni.
    Þá er spurt hvort enn séu uppi hugmyndir um að selja Rás 2 eins og átti að hafa verið ályktað á síðasta landsfundi Sjálfstfl. Ég er að vísu löngu hættur að reyna að reka til baka þennan misskilning sem þarna er enn tönnlast á vegna þess að landsfundur Sjálfstfl. ályktaði ekki í þessa veru, að það ætti að selja Rás 2. (Gripið fram í.) Nei, það gerði hann ekki. En ég er búinn að reyna svo oft að leiðrétta þetta, eins og ég sagði, að ég held að ég reyni það ekkert oftar. Ég segi svona aðeins í framhjáhlaupi að það var samþykkt að kannað skyldi hvort rétt væri að fela öðrum rekstur Rásar 2 og það er þó nokkuð annað heldur en að selja Rás 2. Ég vænti þess að hv. þm. skilji þennan mun en ég geri ekki ráð fyrir að þessi leiðrétting mín núna dugi. Þetta á áreiðanlega eftir að heyrast oftar.
    Um Menningarsjóð útvarpsstöðva. Hv. þm. rakti tilurð þessa ákvæðis í útvarpslögunum og það var rétt hjá honum að það var ósk Framsfl. á sínum tíma, þegar við vorum að afgreiða útvarpslögin, að þessi ákvæði um Menningarsjóð útvarpsstöðva yrðu tekin inn og þau komu inn, ég held ég muni það rétt, svona

nokkuð á lokastigi málsins hér í þinginu. Ég átti sæti í menntmn. á þeim tíma og hafði miklar efasemdir um að þarna væri farin rétt leið. En þetta varð málamiðlun.
    Mér finnst mjög eðlilegt að ákvæðin um Menningarsjóð útvarpsstöðva komi til sérstakrar athugunar við þessa endurskoðun útvarpslaganna. Það leiðir af sjálfu sér að ákvæði um Menningarsjóðinn verða endurskoðuð, en ég hef ekki látið uppi neinar sérstakar skoðanir um það hvort nota ætti þetta tækifæri til þess að leggja sjóðinn niður. Ég hef aðeins, eins og ég sagði áðan, látið í ljósi áður efasemdir um að þarna væri farin rétt leið. Ýmsir hafa sagt, og mér finnst það vera sjónarmið út af fyrir sig, að útvarps- og sjónvarpsstöðvum sé vel treystandi til að fara með þetta fé sem þær fá inn í auglýsingum. Þetta er 10% skattur af auglýsingum útvarps- og sjónvarpsstöðvanna. Þeim væri vel treystandi til þess sjálfum að verja þessu fé til innlendrar dagskrárgerðar. En þetta hefur allt fengið á sig nokkuð aðra mynd heldur en í upphafi við þá breytingu sem varð við reglugerðina sem fyrrv. menntmrh., hv. þm. Svavar Gestsson, setti, ef ég man rétt á árinu 1991, þegar úthlutun úr sjóðnum gat orðið til annarra en útvarps- og sjónvarpsstöðva. Ég er ekki viss um að það sé komin nægileg reynsla á þessa úthlutun enn þá til þess að fella upp einhverja dóma um að það sé ómögulegt að úthluta til annarra. Mér þykir sjálfsagt að athugað verði með svona rólegri yfirvegun. Það kemur vonandi í dag, eins og kom fram fyrr á fundinum, þskj. þar sem upplýst er hvernig úthlutanir úr Menningarsjóði útvarpsstöðva hafa verið á undanförnum árum.
    Ég held að með þessum orðum mínum hafi ég svarað þeim fyrirspurnum sem hv. þm. Svavar Gestsson beindi til mín.