Útvarpslög

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 16:26:29 (8035)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég gerði það nú af þeirri ástæðu að hér eru mörg mál á dagskrá og þingtími stuttur að sagt er, að láta formenn nefnda mæla fyrir málum án þess að gera sérstaklega grein fyrir þeim nefndarálitum sem ég hef skrifað undir. En hér hafa farið fram mjög fjölbreytilegar umræður. Þær hafa snúist um menningarmál vítt og breitt, þær hafa snúist um það hver væri menningarlegastur þingmanna Sjálfstfl. Það mál er óupplýst og kannski ekki einfalt að fá svör við því. Sumir geyma merk menningarverðmæti á sínum borðum og hafa til aflestrar milli þess sem þeir sinna þingstörfum og ég ætla ekki að gerast dómari í þeim efnum.
    Hér er einnig hafin umræða um EES og hefðu þeir sem fluttu það mál inn á þingið betur tekið þau rök fyrr inn að við ættum EES það að þakka að ekki væru auglýsingar í messum. Einhverra hluta vegna hafa ekki verið auglýsingar í messum. Það eru út af fyrir sig merkilegir hlutir að Ísland skuli hafa bjargast þennan tíma allan án EES án þess að auglýsingar væru í messum. Það væri kannski tryggara að setja það í lög að sólin ætti að ganga frá austri til vesturs. Það hefði mátt hafa það með í þessum EES-pakka og halda því svo fram að þetta ættum við líka EES að þakka. En þetta segir bara hvað íslenskt löggjöf hefur látið margt afskiptalaust vegna þess að hún hefur treyst dómgreind manna og m.a. trúað því að himintunglin gætu gengið sinn veg. En nú erum við að ganga frá samningum varðandi loftlagsbreytingar eins og allir vita og kannski er rétt að hafa þá sólina inni líka.
    Hér var aftur á móti vikið að einum þætti útvarpslaga sem ekki var á dagskrá, en það var gert með þeim hætti að ég taldi rétt að rifja þá fortíð örlítið upp. Þegar lögin sem innihalda Menningarsjóð útvarpsstöðva voru samþykkt sat ég í menntmn. fyrir Framsfl. og þá sat núv. hæstv. samgrh. einnig í þeirri nefnd.

Og núv. hæstv. menntmrh. ásamt núv. seðlabankastjóra einum, menningarlegum mjög og þannig gæti ég auðvitað haldið áfram að telja upp en ætla ekki að gera það.
    Kjarni málsins var sá að það var verið að taka ákvörðun um það að fyrirtæki sem hafði haft einokun á ákveðnum markaði ætti að búa við samkeppni. Og þetta leiðir hugann að því að þeir sem eru einir fara stundum í að gera hluti sem ekki er ætlast til þess að þeir standi að samkvæmt lögum. Seðlabankinn kom sér upp mjög merku bókasafni eins og allir vita þó að ekkert ákvæði sé í lögum um það að Seðlabankinn eigi að reka bókasafn. Og útvarpið hafði komið sér upp sinfóníuhljómsveit, myndarlegri sinfóníuhljómsveit, og þessi sinfóníuhljómsveit kostaði peninga. Hún kostaði svo mikla peninga að það var alger tregða hjá ríkisvaldinu að kippa henni yfir til sín og sjá um hana. Þetta hlaut að kalla á það að menn vörpuðu fram þeirri spurningu: Ef útvarpsstöðvar yrðu frjálsar, væri það þá ekki eðlilegt að þær héldu áfram að bera þann bagga að einhverjum hluta að sjá um fjármögnun sínfóníuhljómsveitar sem hafði verið einkaframtak útvarpsins fram að þeim tíma? Það var ekki vilji okkar í menntmn. að leggja hljómsveitina niður. Við töldum að það væri ekki lausn á þessu máli, heldur yrði að snúa sér að því að finna einhverja ástættanlega lausn um það hverjir ættu að greiða kostnaðinn af sinfóníuhljómsveitinni. Þetta var gert m.a. með því að Menningarsjóður útvarpsstöðva sem átti að hafa tekjur af auglýsingum skyldi bera vissan hluta af þessari byrði. Og það er ekkert launungarmál að sá sem hér stendur var kröfuaðilinn um að þetta yrði gert. Og það heyrðist aldrei nein yfirlýsing um það frá öðrum í þingsölum Alþingis hver ætti að borga sinfóníuhljómsveitina, horft til framtíðar. Það er kannski rétt að það verði þá upplýst núna hver á að borga ef menn ætla að setja þetta til hliðar og þá er líka rétt að hæstv. fjmrh. sé í salnum. Það var eitt atriðið að ákvöruninni um menningarsjóðinn en það var fleira.
    Það er vitað að það er hægt að reka útvarpsstöðvar sem lifa á auglýsingum, hafa mikið léttmeti á sínum boðstólum og hafa mjög góða fjárhagslega afkomu. Það er auðvelt að reka slíkar stöðvar. Spurningin var bara þessi: Áttum við sem þá sátum í menntmn. að reyna að stuðla að því með einhverjum hætti að allar þær stöðvar sem yrðu stofnaðar á Íslandi, ekki bara Ríkisútvarpið, hefðu einhvern ávinning af því að stuðla að menningarstarfsemi í landinu og með því að skattleggja þær á þennan hátt að 10% af auglýsingatekjunum færu inn í þennan sjóð, þá var það viss hvati til þess að reyna að ná þeim peningum til baka að eina leiðin til þess væri að þeir aðilar birtu menningarlegt efni.
    Ég tel að hjá smáþjóð eins og Íslendingum sé það mjög stórt mál að reyna að styðja innlenda dagskrárgerð. Það er erfitt mál og það mál kostar peninga. Það er vitað. Ég tel að stuðningur við þá aðila, sem vilja sjálfstætt vinna að dagskrárgerð og selja svo sjónvarpsstöðvum, eigi fullan rétt á sér. Auðvitað getum við endalaust deilt um það hvort þeir sem hafa stjórnað sjóðnum hafi veitt styrki út úr sjóðnum á réttan hátt. Hvenær er ekki hægt að deila um það? Getum við ekki deilt um það líka ef við viljum hvort þeir sem hafi heiðurslaun listamanna, hvort allt sem þeir hafi afrekað sé 100% að gæðum, er ekki endalaust hægt að deila um list ef menn snúa sér að því? Er ekki endalaust líka hægt að deila um menningarmál? Ég hef séð mjög marga þætti sem hafa verið kostaðir af Menningarsjóði útvarpsstöðva og það hafa verið góðir þættir. Það hefur verið vel unnið efni og ég tel að það hefði verið lélegra efni í íslenskum útvarpsstöðvum á þessu tímabili ef þessi menningarsjóður hefði ekki veri til staðar. Það er mín skoðun. Ég hvet þá sem nú telja að þetta hafi verið vanhugsað til þess að láta safna þessum þáttum öllum saman, spyrja ekki um það hvort þeir hafi verið sýndir á Stöð 2 eða í Ríkisútvarpinu og fara yfir þá, sjá þá, skoða þá og spyrja sjálfan sig: Er það sjálfgefið að þetta hefði verið gert ef þeir hefðu ekki fengið stuðning úr þessum sjóði? Stjórn sjóðsins er skipuð með þeim hætti að útvarpsráð tilnefnir einn. Einn kemur frá öllum öðrum útvarpsstöðvum en Ríkisútvarpinu. Það er jafnræði og menntmrh. skipar þann þriðja.
    Það má e.t.v. segja sem svo að menntmrh. sé fulltrúi ríkisins og þar með fulltrúi Ríkisútvarpsins. Ég hygg nú samt að sé þetta skoðað að menntmrh. líti svo á að þeir séu fulltrúar fyrir landið allt. Þeir séu líka fulltrúar fyrir hinar frjálsu útvarpsstöðvar og þeir reyni að skipa menn til þessara starfa sem þeir treysti til þess að hafa þar visst jafnvægi á. Ég er ekki trúaður á að það verði of mikið innlent dagskrárefni í útvarpsstöðvum þessa lands. Ég held að það sé kannski fyrst og fremst það eina atriði sem enn geta deilt um fram og til baka, hafa einhverjir fengið meira að þeirra mati en þeir töldu eðlilegt, en ég held að menn geti ekki deilt um það ef þeir vilja skoða þetta mál af sanngirni að menningarsjóðurinn hefur orðið til þess að betra efni hefur verið á boðstólum í íslenskum útvarpsstöðvum.
    Ég vil taka undir þau orð sem hafa komið hér fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að ég hefði talið eðlilegt að við endurskoðun þessara laga væri meiri breidd en nú er. Með því er ég ekki að lýsa neinu vantrausti á þá menn sem fengið hafa það hlutverk að vinna að þessari endurskoðun og mér er ljóst að sá þingmaður sem er í þessari nefnd, hv. þm. Tómas Ingi, getur að sjálfsögðu ekki nú tekið þau mál til umræðu hér í þessum stól hvað þeir eru að vinna að í nefndinni. En kjarni málsins er sá að ráðherrar koma og fara, ríkisstjórnir koma og fara. Þingið heldur aftur á móti vissu jafnvægi. Það sópast vissulega eitthvað til á milli stjórnmálaflokka en það verður að vera hægt að treysta þinginu til þess að hvernig sem sú tilfærsla er, þá hljóti Alþingi Íslendinga að vinna af heilindum að þessum málum á breiðum grundvelli. Ég tel að nokkuð vel hafi tekist til með þeirri lagasetningu á sínum tíma. Fyrstur manna skal ég verða til að viðurkenna að hún var frumraun í þeim miklu breytingum sem þá voru gerðar og það þarf vissulega að endurskoða þessi lög. Það þarf að sjálfsögðu einnig að endurskoða þann kafla sem fjallar um Menningarsjóð útvarpsstöðva, en það er auðvelt að rífa niður en það er oft erfitt að byggja upp.