Framhaldsskólar

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 16:49:42 (8037)

     Frsm. minni hluta menntmn. (Svavar Gestsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að ég tel að það sé hrein handvömm hjá menntmn. að hafa ekki afgreitt þessa tillögu hv. þm. Stefáns Guðmundssonar. Ég sé heldur ekki að það sé neitt sem bannar það að hv. menntmn. komi saman og afgreiði tillöguna.

    Staðreyndin er sú að tillagan kom snemma til nefndarinnar. Þá hafði ég orð á því á nefndarfundi að ég væri tilbúinn til að afgreiða hana strax, samþykkja hana eins og hún þá lá fyrir vegna þess að hún hafði þegar fengið ítarlega þinglega meðferð auk þess sem menn höfðu hver á fætur öðrum hér í ræðustól við umræður um málið lýst stuðningi við tillöguna. Mér þótti því alveg einboðið að hægt væri að hrista þessa tillögu frá. Af þeim ástæðum varð hún ekki send til umsagnar að menn töldu eða ég taldi alla vega að hún yrði samþykkt fljótlega á fundum nefndarinnar. Síðan lendir það í útideyfu að taka á málinu og það er alveg rétt hjá hv. þm. að það hefði átt að taka á þessari tillögu í tengslum við það frv. sem hér liggur fyrir og sömuleiðis í tengslum við tillögu hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar sem verður væntanlega tekin til umræðu síðar á þessum fundi og vísað til ríkisstjórnarinnar, með mjög jákvæðum hætti með hliðsjón af þessu frv. Þá hefði verið eðlilegt að mínu mati að þessar tillögur hefðu orðið samferða allar þrjár, eitt frumvarp og tvær þáltill. Ég vil taka undir það með hv. þm. að ég skil mjög vel að hann skuli gera athugasemdir við þessa vinnu í menntmn. og lýsi mig fyrir mitt leyti tilbúinn til þess að koma þar á fund nú þegar til að afgreiða þessa tillögu.