Safn þjóðminja að Hólum í Hjaltadal

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 17:09:11 (8043)

     Frsm. menntmn. (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. menntmn. á þskj. 1090 um till. til þál. um safn þjóðminja að Hólum í Hjaltadal.
    ,,Nefndin hefur fjallað um tillöguna og fékk um hana umsögn frá menntamálaráðuneytinu, landbúnaðarráðuneytinu, Jónasi Gíslasyni, vígslubiskupi í Skálholti, Bolla Gústavssyni, formanni Hólanefndar, Félagi íslenskra safnamanna, Ferðmálaráði Íslands, Þór Magnússyni þjóðminjaverði, héraðsnefnd Skagfirðinga og fjármálaráðuneytinu.
    Nefndin mælir með samþykkt tillögunnar með eftirfarandi breytingu:
    Tillgr. orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna möguleika á stofnun safns þjóðminja að Hólum í Hjaltadal er verði einkum helgað kirkjusögu Íslands.``
    Þess ber að geta að Ólafur Þ. Þórðarson og Valgerður Sverrisdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en undir nál. skrifa Sigríður A. Þórðardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Björn Bjarnason, Tómas Ingi Olrich, Svavar Gestsson, Kristín Ástgeirsdóttir og Árni Johnsen.
    Ég vil taka það fram að þessi breyting felur það í sér að orðalagið er ekki eins afdráttarlaust og í upphaflegri till. til þál. en þar var lagt til að Alþingi ályktaði að fela ríkisstjórninni að undirbúa stofnun safns þjóðminja að Hólum í Hjaltadal er verði einkum helgað kirkjusögu Íslands, en hér er talað um að kanna möguleika á stofnun slíks safns.