Fyrirhugaður niðurskurður í herstöðinni í Keflavík

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 17:33:59 (8045)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það vakti verulega athygli þegar fram kom í Morgunblaðinu á þessum degi að mikill niðurskurður væri fyrirhugaður í herstöðinni í Keflavík og það eru þau tíðindi sem eru tilefni þess að ég bið hér um umræðu utan dagskrár og hyggst beina fyrirspurnum til hæstv. utanrrh.
    Það eru einkum þrjú atriði sem mér finnst þörf á að ræða í ljósi þeirra fregna sem fram hafa komið. Það er í fyrsta lagi hin almenna staða að því er varðar herstöðina og herstöðvarsamninginn, í öðru lagi aðstaða þess fjölda fólks sem á það á hættu að missa atvinnu vegna líklegra breytinga í herstöðinni og það er í þriðja lagi framkoma ráðherra og raunar einnig formanns utanrmn. gagnvart þinginu að því er mál þetta varðar.
    Um fyrsta atriðið vil ég segja að vissulega ber að fagna því að vaxandi líkur eru á að til verulegs niðurskurðar og samdráttar komi í herliði og búnaði Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli. Það er stefna Alþb. að hérlendis eigi enginn erlendur her að vera og Ísland eigi að skipa sér utan hernaðarbandalaga. Sú þróun sem hefur verið að gerast á alþjóðavettvangi vekur vonir um að unnt verði að ná þessum markmiðum þótt ljóst sé að sterk öfl hérlendis og í Bandaríkjunum vilji halda dauðahaldi í herstöðina sem Bandaríkjamenn hafa litið á sem mikilvæga útvarðsstöð í eigin öryggiskerfi.
    Varðandi annað atriðið vil ég nefna að breytingarnar sem snerta daglegt líf fjölda fólks og byggðarlögin á Suðurnesjum eru mikið áhyggjuefni fyrir þá sem í hlut eiga. Þetta fólk fréttir nú af áformum um breytingar á stöðu herstöðvarinnar í gegnum dagblöð og ekkert liggur fyrir um það hvort og hvernig stjórnvöld ætla að taka á atvinnumálum í ljósi þessa. Í raun hefur það verið ljóst nú um árabil að í verulegan niðurskurð hlyti að draga í herstöðinni. Samt hafa íslenskt stjórnvöld ekkert marktækt aðhafst í þessum efnum. Alþb. og fleiri hafa minnt á það um langt skeið hver þörf er á því að byggja ekki upp atvinnulíf í heilum landshluta á erlendri herstöð og atvinnu í þágu hennar og um það liggja fyrir fjölmargar tillögur af okkar hálfu sem og ákvæði í stjórnarsáttmálum þar sem Alþb. hefur átt hlut að ríkisstjórnum.
    Í þriðja lagi, virðulegur forseti, er það framkoman gagnvart Alþingi og þjóðinni sem birtist okkur í þögn utanrrh. á undanförnum vikum varðandi það mál og þau gögn og vitneskju sem honum barst um miðjan aprílmánuð þar sem ekkert hefur komið fram um hvað hefur verið að gerast. Þó kemur það fram á þessum degi í framhaldi af fregn í dagblaði að fram hafa farið orðsendingar og skeyti milli aðila á þessum tíma og ráðherra hefur verið fyllilega upplýstur um það mál af hálfu bandarískra stjórnvalda eða viðmælenda sinna.
    Ég gerði að umtalsefni hér varðandi þingsköp fyrr í dag framkomuna gagnvart utanrmn. þar sem ég hafði um það vitneskju frá hæstv. utanrrh. að hann hefði greint bæði forsrh. og formanni utanrmn. frá atburðum þegar 19. apríl sl. Ég vil svo, virðulegur forseti, beina eftirfarandi spurningum til hæstv. ráðherra varðandi málið:
    1. Hvenær fengu íslensk stjórnvöld vitneskju um líkur á miklum niðurskurði í herstöðinni á Keflavíkurflugvelli?
    2. Hverjir fengu upplýsingarnar, aðgang að þeim um stöðu mála og hvenær, innan ríkisstjórnar og í hópi alþingismanna?
    3. Hvers vegna upplýsti ráðherra ekki utanrmn. og Alþingi milliliðalaust um í hvert efni stefndi?
    4. Hvaða orðsendingar hafa farið á milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda með eða án milligöngu sendiráða síðustu daga og vikur?
    5. Hvaða skref eru fyrirhuguð af hálfu stjórnvalda í framhaldi af þessum tíðindum?
    6. Til hvaða ráðstafana ætlar ríkisstjórnin að grípa í atvinnumálum á Suðurnesjum í ljósi líklegrar þróunar og til bjargar því fólki sem að ósekju verður þolendur þessara breytinga?
    7. Er ríkisstjórnin í ljósi þessara atburða reiðubúin til að taka upp samráð við alla þingflokka um að herstöðvarsamningnum verði sagt upp, Ísland skipi sér utan hernaðarbandalaga og íslenskir öryggishagsmunir verði tryggðir, m.a. í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar?