Fyrirhugaður niðurskurður í herstöðinni í Keflavík

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 17:54:47 (8051)

     Árni R. Árnason :
    Virðulegi forseti. Ég geti fyllilega tekið undir að það horfir alvarlega ef umsvifamikil starfsemi leggst niður. En það er nú svona í aðra röndina allt að því gamanmál að þeir sem lýsa nú áhyggjum eru þeir sem hefðu átt að fagna væntanlegum árangri, fylgismenn Samtaka herstöðvaandstæðinga. Hitt er svo rétt og við verðum að gæta þess að okkur Íslendingum öllum mátti vera það vel ljóst nú um árabil að til þessa horfði. Bandaríkjamenn væntu þess að geta notað sína opinberu fjármuni til annarra mála en varnarstarfs á Íslandi. Allt frá árinu 1988 mátti okkur vera þetta ljóst með því að þá þegar hófust þeirra tilraunir til að spara í þessari starfsemi, fækka starfsmönnum bæði Íslendingum sem öðrum.
    Það er aðvitað rétt að umsvif varnarliðsins, resktur og framkvæmdir eru stór hluti af íslensku atvinnulífi en það er ekkert nýtt að til þessa kunni að koma að það dragist saman. Þetta hefur verið eins og hér hefur komið fram umræðuefni á fundum utanmrn., á fundum þessa háa þings, á fundum manna er starfa og lifa á Suðurnesjum núna um árabil. Það er akkúrat ekkert nýtt í þessu. Það eina sem er nýtt er að þegar ákveðnir flokkar Íslendinga þykjast sjá fram á árangur, þá fyllast þeir áhyggjum.
    Það hefur lengi verið rætt á Suðurnesjum, og ég hygg að þess eigi eftir að gæta betur á næstu mánuðum en hingað til, að menn þar vilja leita nýrra leiða í atvinnumálum. Þeir sem hér hafa talað digurbarkalega um einhverja raunverulega peninga geta að vissu marki sjálfum sér um kennt. Þeir sátu yfir sjóðum landsmanna fyrir fáum mánuðum um árabil og til hvers var þá fjármunum varið? Var þeim varið til atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum í ljósi markmiða þessara manna? Nei, þeim var varið til einhverra annarra hluta.