Fyrirhugaður niðurskurður í herstöðinni í Keflavík

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 17:57:00 (8052)

     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Hlutverk herstöðvarinnar í Keflavík var á sínum tíma aðallega það að fylgjast með flug- og kafbátaumferð hér á norðurslóðum. Það hefur lengi legið ljóst fyrir að aðstæður eru mjög breyttar í þessum efnum og Bandaríkjamenn mundu hafa hug á því að draga saman sinn viðbúnað hér. Ég er ekki frá því að ráðamenn hér hafi látið blekkjast með því að Bandaríkjamenn hafa ávallt sagt að herstöðin hér væri mikilvæg og staðið í þeirri meiningu að hér mundi ekki vera dreginn saman viðbúnaður að sama skapi og annars staðar. Ég hygg að Bandaríkjamenn ætli sér ekki að yfirgefa þessa herstöð alveg en ég hygg að þeir muni spara þarna eins og þeir mögulega geta og hafa algjöran lágmarksviðbúnað.
    Ég ætla ekki að ræða um það hér hvað er æskilegt í þeim efnum á þessum tíma sem ég hef nú. En það er náttúrlega alveg ljóst að það er afar alvarlegur hlutur fyrir fólkið á Suðurnesjum ef allar breytingar varðandi herstöðina koma íslenskum ráðamönnum gjörsamlega á óvart og hafa engan viðbúnað til þess að bregðast við þeim breyttu aðstæðum sem eru í veröldinni og hafa legið fyrir núna um nokkurra ára skeið. Mér er kunnugt um það að Bandaríkjamenn hafa talað upp í eyrun á Íslendingum um mikilvægi þessarar herstöðvar og kannski láta íslensk stjórnvöld það blekkja sig og halda að hér verði viðbúnaður orrustuflugvéla um aldur og ævi. En það eru bara breyttir tímar, þetta er ekki svona lengur. Þess vegna verður að breyta um og bregðast við breytingunum á réttan hátt.