Fyrirhugaður niðurskurður í herstöðinni í Keflavík

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 17:59:48 (8053)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Samráðsleysi stjórnvalda við utanrmn. er alveg hreint til háborinnar skammar og dæmigert fyrir vinnubrögð ríkisstjórnarinnar. Ég vil líka segja að það er hreinlega vítavert andvaraleysið sem verið hefur vegna atvinnumála á Suðurnesjum þrátt fyrir að það sé löngu ljóst að hverju stefndi þar. Það er ánægjuleg þróun í átt til friðar sem veldur því að það er samdráttur á Keflavíkurflugvelli og engin ástæða til að harma það. Það er hins vegar ástæða til að harma það hvernig á málum hefur verið tekið og ég vil benda á það að t.d. vorið 1991 bar ég fram fyrirspurn um áætlanir þáv. ríkisstjórnar um atvinnumál á Suðurnesjum og sérstaklega með tilliti til þess samdráttar sem var fyrirsjáanlegur í umsvifum Bandaríkjahers þar. Og það verður nú að segjast eins og er að hæstv. utanrrh., sem þá var hinn sami og

nú, hafði ekki upp á neitt að bjóða þá annað en álver. Við vöruðum þá ýmis við því að það væri kannski frekar tálver en álver. Núna er boðið upp á fríiðnaðarsvæði. Við vitum ekkert um hvað verið er að ræða þar enn þá. Það er bent á Aðalverktaka. Það er samt skilyrt þannig að Suðurnesjamenn eru ekki farnir að sjá nokkurn skapaðan hlut nema eitthvað örlítið sem ekkert gagn er að. Ég verð því að taka undir með Jóhanni Geirdal, formanni Verslunarfélags Suðurnesja, en hann var mjög harðorður í dagblaði í dag og sagði að menn hefðu stungið hausnum í sandinn og neitað að trúað því sem var að gerast. Það var utandagskrárumræða núna á þessu vori um það hvað væri að gerast í atvinnumálum á Suðurnesjum. Þar komu engin almennileg fyrirheit, enda þess ekki að vænta frá þessari ríkisstjórn.