Utandagskrárumræður

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 18:27:14 (8066)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Það er sýnilegt að þetta 30 mínútna form á utandagskrárumræðum er gallað vegna þess að tíminn endist ekki til að ræða málin til hlítar. Ég kippi mér nú ekki upp við það þó að mannasiðir hæstv. utanrrh. séu ekki í sem bestu lagi. Ég er vanur dónaskap og illyrðum frá honum og líka því að hann misnoti aðstöðu sína ef hann hefur tækifæri til. Það sem mér þykir verra er þegar hann segir rangt frá. Hann kom ekki hreint fram við þingið. Hann þagði yfir mikilverðum upplýsingum. Hann fór með rangar staðhæfingar úr ræðustólnum. Ég fyrirgef honum það þó að hann sé á tauginni. Hann er á tauginni vegna þess að hann er með allt niður um sig á Suðurnesjum líka og ég fyrirgef honum þó að hann stökkvi upp á nef sér og verði sér til minnkunar, hæstv. utanrrh. En hitt á ég verra með að þola þegar hann fer á bak við Alþingi eða gefur því rangar og villandi upplýsingar eins og hann hvað eftir annað hefur tíðkað að gera nú í vetur.