Utandagskrárumræður

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 18:31:53 (8069)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Það varðar þingsköp og ekkert annað ef menn misnota aðstöðu sína í umræðu þegar ekki er hægt að svara þeim. Ég get t.d. ekki svarað svívirðingum hæstv. utanrrh. er hann misnotaði þingskapaumræðu til þess að ausa dylgjum og svívirðingum yfir okkur stjórnarandstæðinga, ég get ekki svarað því vegna þess að hér er ég að ræða þingsköp. Þingsköpin eru meingölluð ef það er ekki hægt að fá að svara fyrir sig með tilhlýðilegum hætti og innan ramma þingskapanna og ekki er það síður bagalegt að sitja uppi með þingsköp sem æ ofan í æ reynast vera þannig að ráðherrar eru í aðstöðu til að misnota sér sína aðstöðu með því að nota sína síðustu ræðu í hálftíma utandagskrárumræðu til þess að ausa úr skálum reiði sinnar, geðvonsku og vera með skammir, dylgjur og svívirðingar. Þetta eru einfaldlega þingsköp sem við getum ekki unað við.