Utandagskrárumræður

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 18:41:32 (8075)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég er nú ekki ein af þeim sem oft tala hér um þingsköp, en ég vil vara hæstv. utanrrh. við að bera mikið saman þjóðþingið okkar og erlend þjóðþing. Þar er ærið mikið margt öðruvísi og til þess að fríska aðeins upp á skammtímaminni hæstv. ráðherra ( Gripið fram í: Hann hlustar ekki.) vil ég nefna nýliðinn atburð vegna þeirrar umræðu sem hér fór fram áðan.
    Maður heitir Björn Engholm, sósíaldemókrati í Þýskalandi. Honum varð það á að leyna vitneskju sinni um róginn um sjálfan sig viku lengur en ætlað var og hefur nú orðið að segja af sér þó hann væri kanslaraefni sósíaldemókrata í Þýskalandi. Þar í landi er nefnilega ekki liðið að neinn ráðherra leyni þjóðþingið upplýsingum. Þannig er svo margt öðruvísi í útlandinu en hérna.
    Hæstv. forseti. Því kom ég hér í stólinn að fram af hv. þm. hlýtur að vera gengið eftir þá umræðu sem hér hefur átt sér stað. Við erum hér að reyna að ljúka þingi. Við vinnum hér nefndastörf myrkranna á milli og mér er næst í sinni að skora á hv. þm. stjórnarandstöðunnar, þessa hálfgölnu menn, óknyttafólk og skæruliða að leggja þessi störf niður og leyfa virðulegum meiri hluta þessa þjóðþings að ljúka þessu þingi í friði fyrir okkur. Það gengur fram úr öllu að voga sér að ávarpa þingheim á þennan hátt. Ég vil biðja hæstv. forseta að gera nú hlé á þessum fundi og reyna að komast að einhverri niðurstöðu um það hvort við eigum að sitja hér undir orðbragði á borð við þetta. Þetta vildi ég sagt hafa, en vil minna hæstv. utanrrh. á að varast að bera verklag sitt saman við þjóðþing annarra ríkja.