Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála

173. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 20:57:22 (8084)

     Frsm. menntmn. (Björn Bjarnason) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir hönd allrar nefndarinnar. Hún hefur skilað sameiginlegu nál. á þskj. 1087 um þetta frv. til laga um Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála. Ég ætla að lesa álitið með leyfi herra forseta:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk á sinn fund til viðræðna um það Guðríði Sigurðardóttur, ráðuneytisstjóra í menntmrn., Þórólf Þórlindsson prófessor, forstöðumann Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála, Eggert Lárusson, formann Hins íslenska kennarafélags, Eirík Jónsson, varaformann Kennarasambands Íslands, og Birnu Sigurjónsdóttur, formann skólaráðs Kennarasambands Íslands.
    Nefndin mælir með samþykkt frv. með breytingu sem flutt er tillaga um á sérstöku þskj., 1088, en brtt. nefndarinnar eru eftirfarandi:
    1. Við 1. gr. er gerð sú breyting að kveðið er á um að Rannsóknastofnunin skuli vera vísindaleg stofnun svo sem er í gildandi lögum.
    2. Við 4. gr. eru gerðar þrjár breytingar. Fyrsta breytingin er við 1. tölul. 4. gr. er lýtur að samningu samræmdra prófa og könnunarprófa og felur í sér að felldar eru á brott tilvísanir til skólastiga. Það er gert með hliðsjón af því að enn liggur ekki fyrir hvort tekin verða upp samræmd próf á framhaldsskólastigi. Hins vegar felst ekki í breytingunni tillaga um að leggja af samræmd próf á grunnskólastigi.
    Önnur breytingin er við 4. tölul. 4. gr. og er gerð til að taka af öll tvímæli um að ráðgjöf stofnunarinnar fyrir menntmrh. sé ekki bundin við breytingar á aðalnámsskrá grunn- og framhaldsskóla heldur veiti stofnunin almenna ráðgjöf um þessa námsskrá.
    Þriðja breytingin er einnig við 4. tölul. 4. gr. og felur í sér lagfæringu á málfari.
    3. Við 5. gr. eru gerðar tvær breytingar. Fyrri breytingin felur í sér að felld eru brott ákvæði um að forstöðumaður stofnunarinnar skuli ráðinn samkvæmt samningi við menntmrh. Þykir ákvæðið óþarfti. Síðari breytingin felur í sér að forstöðumaður ráði starfsmenn stofnunarinnar án þess að til þurfi að koma samþykki ráðherra og er gerð til að samræmi sé við 1. gr. frv. þar sem kveðið er á um sjálfstæði stofnunarinnar.
    4. Við 7. gr. eru gerðar breytingar á skipan ráðgjafanefndarinnar. Í fyrsta lagi er kveðið á um að Kennarasamband Íslands og Hið íslenska kennarafélag tilnefni sameiginlega tvo fulltrúa í nefndina og skal annar þeirra vera grunnskólakennari og hinn framhaldsskólakennari, en félagsmenn í HÍK stunda margir kennslu í grunnskóla og félagsmenn KÍ í framhaldsskólum. Þá er fellt brott ákvæði um að rektorar Háskóla Íslands, Háskóla Akureyrar og Kennaraháskóla Íslands skuli sitja í nefndinni og gerð tillaga um að þessum skólum sé veitt sjálfdæmi um hverja þeir tilnefni í nefndina. Nokkur umræða varð um það hvort að aðrir skólar á háskólastigi skyldu sameiginlega tilnefna fulltrúa í nefndina, í stað þess að einskorða tilnefninguna við áðurgreinda þrjá skóla, en við nánari athugun var það ekki talið rétt og m.a. haft í huga að þessir þrír skólar eru þeir sem einkum sinna kennaramenntun á Íslandi.``
    Undir þetta rita 4. maí sl. Sigríður A. Þórðardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Svavar Gestsson með fyrirvara, Björn Bjarnason, Kristín Ástgeirsdóttir, Tómas Ingi Olrich, Valgerður Sverrisdóttir, Ólafur Þ. Þórðarson og Árni Johnsen.